- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sextán mínútur án marks

Írena Björk Ómarsdóttir, markvörður FH, stóð sig með prýði í marki FH í fyrri hálfleik gegn Val í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Valur fór upp í þriðja sæti Olísdeildar kvenna með öruggum sigri á botnliði FH, 33:14, í Origohöllinni í kvöld en um var að ræða upphafsleik 12. umferðar sem lýkur annað kvöld. Sextán mínútur liðu frá því að FH-liðið skoraði 11. mark sitt og þar til það 12. var skorað. Það segir allt um yfirburði Valsliðsins í síðari hálfleik. Staðan var 15:9, Val í vil að loknum fyrri hálfleik.


Valur hefur þar með 17 stig og komst upp fyrir ÍBV. KA/Þór og Fram eru í efstu sætunum tveimur.


Viðureignin í Origohöllinni í kvöld var aldrei spennandi og kannski vart við því að búast. FH-liðið hefur átt erfitt uppdráttar alla leiktíðina og er án stiga. Ekki bætti úr skák að Britney Cots og Fanney Þóra Þórsdóttir léku ekkert með að þessu sinni og Sigrún Jóhannsdóttir missti af öðrum leiknum í röð vegna meiðsla. Allar eru þær meiddar.


Jafnræði var nokkurt á fyrstu 10 mínútunum og en eftir það skildu leiðir og um tíma var helmingsmunur á liðunum nokkru fyrir hálfleik. Valsliðið þurfti ekki stjörnuleik til þess að ráða lögum og lofum. Sóknarleikur liðsins var á tíðum slakur með talsvert af einföldum mistökum auk þess sem varnarleikurinn var á tíðum ekki sannfærandi. Þess utan varði ágætur markvörður FH-liðsins, Írena Björk Ómarsdóttir tvö vítaköst frá leikmönnum Vals. Engu að síður var sex marka munur að loknum fyrri hálfleik, 15:9.

Frekar dró af FH-ingum í síðari hálfleik og munurinn varð fljótlega enn meiri. Eftir 10 mínútur í síðari hálfleik var kominn 12 marka munur, 23:11. Varnarleikur Vals var betri á upphafsmínútum hálfleiksins og Sara Sif Gísladóttir var vel með á nótunum í markinu. FH-ingar áttu í erfiðleikum með að koma skotum á markið og þegar það tókst rötuðu skotin ekki rétt leið.


Anna Úrsúla Guðmundsdóttir lék ekki með Val. Hún fékk slæma byltu í viðureign við Stjörnuna á síðasta laugardag og hefur ekki jafnað sig. Þórey Anna Ásgeirsdóttir kom ekkert við sögu í leiknum þótt hún væri á leikskýrslu.


Rétt er að hæla markvörðum FH-liðsins, Hrafnhildi Hönnu Þorleifsdóttur og Írenu Björk Ómarsdóttur. Þær skiptu leiknum á milli sin og stóðu sína vakt með prýði. Einn besti leikmaður FH-liðsins á leiktíðinni Emilía Ósk Steinarsdóttir náði sér alls ekki á strik að þessu sinni.


Mörk Vals: Lilja Ágústsdóttir 7/5, Auður Ester Gestsdóttir 4, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Lovísa Thompson 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 2, Mariam Eradze 2, Karlotta Óskarsdóttir 1, Hulda Dís Þrastardóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 10, 47,6% – Margrét Einarsdóttir 5, 62,5%.
Mörk FH: Hildur Guðjónsdóttir 7/3, Freydís Hara Þórsdóttir 3, Ragnheiður Tómasdóttir 2, Emilía Ósk Steinarsdóttir 1, Andrea Valdimarsdóttir 1.
Varin skot: Írena Björk Ómarsdóttir 8, 25% – Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 4, 30,8%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -