Engan bilbug er að finna á handknattleiksdómaranum og Mývetningnum Bóasi Berki Bóassyni þótt hann hafi orðið sextugur á dögunum. Áfram dæmir hann kappleiki í efstu deildum karla og kvenna og gefur yngri mönnum ekkert eftir.
Bóas Börkur dæmdi í gærkvöld fyrsta sinn á leiktíðinni í Olísdeild karla eftir sextugsafmælið í síðasta mánuði. Hann hélt uppi röð og reglu ásamt félaga sínum til margra ára, Herði Aðalsteinssyni, í viðureign Selfoss og Gróttu í Sethöllinni á Selfoss.
„Okkur gekk vel og það var bara gaman að þessu,“ sagði Bóas glaður í bragði við handbolta.is eftir æsispennandi leik í Sethöllinni á Selfossi í gær þar sem heimamenn unnu nauman sigur, 28:27.
Óteljandi leikir á löngu tímabili
Bóas hefur dæmt í meistaraflokki frá 2008 og síðasta áratuginn marga leiki í Olísdeildum karla og kvenna og bikarkeppninni, m.a. undanúrslitaleiki í bikarkeppninni. Leikirnir í meistaraflokki skipta hundruðum auk ótalins fjölda leikja í yngri flokkum, ekki síst fyrir Fram.
Varla hefur farið fram það yngri flokka mót á vegum Fram um langt árabil nema að Bóas hafi góðfúslega tekið þátt með sinni léttu lund. Reyndar hafa Bóas og eiginkona hans, Eyja Elísabet Einarsdóttir, unnið mikið og óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf fyrir Fram í gegnum tíðina og eru enn að.
Dæmdi með syninum hjá syninum
„Ég hef dæmt með Herði í 12 ár en einnig af og til með öðrum dómurum ef þörf hefur á, ekki síst með Bjarka syni mínum.
Við feðgar höfum dæmt marga leiki, bæði í mótum og eins æfingaleiki. Einn skemmtilegasti áfanginn hjá okkur feðgum var æfingaleikur hjá ÍR fyrir nokkrum árum þegar Elías sonur minn lék með liðinu,“ segir Bóas Börkur sem hefur ekki uppi nein áform um að hætta að dæma enda í góðu formi og hefur gaman af.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.