Kapphlaup Hauka og Vals um efsta sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik hélt áfram í kvöld þegar bæði lið unnu andstæðinga sína í upphafsleikjum 8. umferðar. Haukar skoruðu þrjú síðustu mörkin á heimavelli og lögðu Stjörnuna, 25:24. Sara Katrín Gunnarsdóttir skoraði sigurmarkið skömmu fyrir leikslok en rétt áður var boltinn dæmdur af Stjörnunni.
Sannarlega gremjulegt fyrir leikmenn Stjörnunnar að fá ekkert út úr leiknum eftir að hafa verið síst lakari.
Valur lagði Fram með fimm marka mun, 26:21, í Úlfarsárdal. Fram skoraði aðeins eitt mark síðustu 12 mínútur leiktímans. Það dugir skammt gegn Val jafnvel þótt liðið eigi á tíðum erfitt með að skora. Valur getur varist eins og glögglega kom í ljós á endasprettinum. Í kjölfarið fylgdu mörk eftir hröð upphlaup og leiðir liðanna skildu eftir mjög jafnan leik lengst af.
Þrátt fyrir tapið eru greinilega batamerki á leiki Fram frá síðasta leik gegn KA/Þór þótt það hafi ekki dugað nema í nærri 50 mínútur gegn Íslandsmeisturunum.
Eins og stundum áður þá flaut Valsliðið áfram á góðum varnarleik og framúrskarandi markvörslu. Hafdís Renötudóttir var frábær gegn sínum fyrri samherjum. Hafdís meiddist á hné þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Vonandi eru meiðslin ekki alvarlega þegar skammt er til heimsmeistaramótsins.
Haukar og Valur virðast vera að stinga önnur lið af. Nú munar orðið sex stigum á toppliðunum tveimur og Fram í þriðja sæti með átta stig. ÍBV hefur reyndar einnig átta stig og á leik til góða.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Fram – Valur 21:26 (12:11).
Mörk Fram: Alfa Brá Hagalín 6, Lena Margrét Valdimarsdóttir 5, Harpa María Friðgeirsdóttir 3, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 3, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1, Kristrún Steinþórsdóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 9, Ethel Gyða Bjarnasen 0.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 5, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Morgan Marie Þorkelsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, Sara Sif Helgadóttir 1.
Haukar – Stjarnan 25:24 (13:13).
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 9/5, Sara Katrín Gunnarsdóttir 4, Ragnheiður Sveinsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Sara Odden 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Birta Lind Jóhannsdóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Elísa Helga Sigurðardóttir 5/1, 29,4% – Margrét Einarsdóttir 3, 20%.
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 9/5, Helena Rut Örvarsdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Rakel Dórothea Ágústsdóttir 3, Anna Karen Hansdóttir 3, Ivana Jorna Meincke 1, Stefanía Theodórsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 10, 30,3%.
Handbolti.is fylgdist með leikjum kvöldsins í textalýsingu.