Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar í norska meistaraliðinu Kolstad unnu Elverum með fimm marka mun í uppgjöri tveggja stærstu liðanna í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla, 32:27.
Leikið var í Hákonshöllinni í Lillehammer að viðstöddum liðlega 6.700 áhorfendum. Eins og nærri má geta var stemningin afar góð. Hákonshöll var reist fyrir vetararólympíuleikana 1994 og er einstaklega glæsilegt íþróttamannvirki.
Sigvaldi Björn skoraði þrjú mörk í leiknum í dag gegn sínu gamla félagi, þar af var eitt mark úr vítakasti. Sigvaldi Björn lék með Elverum frá 2018 til 2020 við afar góðan orðstír.
Kolstad var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:15. Liðið tyllti sér þar með á toppinn með níu stig að loknum sex leikjum.
Róbert Sigurðarson og félagar í Drammen hafa einnig níu stig og eiga leik til góða. Elverum er í þriðja sæti með átta stig.
Sander Sagosen var markahæstur hjá Kolstad með sjö mörk. Andrian Aalberg var næstur með fimm mörk. Kasper Thorsen Lien skoraði fimm mörk og var markahæstur hjá Elverum.