- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sigvaldi og Janus skoruðu helming markanna

Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður og fyrirliði norska meistaraliðsins Kolstad. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Janus Daði Smárason skoruðu helming marka Noregsmeistara Kolstad í kvöld þegar liðið vann meistara síðustu ára, Elverum, 30:27, í Elverum í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Sigvaldi Björn, sem er fyrirliði Kolstad, varð meistari með Elverum 2020 kunni vel við sig á gamla heimavellinum. Hann skoraði átta mörk, þar af tvö úr vítaköstum. Janus Daði skoraði sjö mörk.

Orri Freyr skoraði eitt mark

Orri Freyr Þorkelsson, sem varð meistari með Elverum fyrir ári, skoraði eitt af mörkum liðsins í dag. Elverum hafnaði í öðru sæti, átta stigum á eftir Kolstad sem varð norskur meistari í fyrsta sinn. Kolstad vann 21 leik af 22 og tapaði einni viðureign.

Íslendingar í fjórða sæti

Runar frá Sandefjord varð í þriðja sæti en Drammen hreppti fjórða sætið. Drammen vann Haslum í Drammenshallen, 30:21, í síðustu umferðinni. Viktor Petersen Norberg skorað fimm mörk fyrir Drammen og Óskar Ólafsson tvö.

Misstu af úrslitakeppni efstu liða

Hafþór Már Vignisson og samherjar hans í ØIF Arendal gerðu jafntefli við Runar á heimavelli í dag, 29:29, og verða að bíta í það súra epli að komast ekki í úrslitakeppni átta efstu liðanna. ØIF Arendal varð í níunda sæti. Arendal hefði þurft að vinna leikinn til þessa að skáka Halden sem hreppti áttunda sætið. Hafþór Már skoraði ekki mark í leiknum við Runar.

Úrslitakeppnin stendur fyrir dyrum

Framundan er úrslitakeppnin í Noregi. Hún hefst fljótlega eftir páska. Liðið sem vinnur úrslitakeppnina verður ekki meistari í Noregi heldur það sem stendur uppi sem sigurvegari í deildinni. Sigurlið úrslitakeppninnar verður úrslitakeppnismeistari eða sluttspillmester. Nafnbótinni fylgir þátttökuréttur í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Elverum vann bæði deild og úrslitakeppnina fyrir ári.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -