- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sjö marka kafli skóp sigur Aftureldingar

Birkir Benediktsson skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu í kvöld. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Afturelding er komin yfir í einvígi sínu við Hauka í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik eftir fjögurra marka sigur, 28:24, á heimavelli í kvöld. Sjö mörk í röð á kafla rétt fyrir miðjan síðari hálfleik lagði grunninn að sigri Aftureldingar.

Á þeim kafla breyttu heimamenn stöðunni úr 14:17 í 21:17. Haukum tókst ekki að koma til baka og máttu þar með játa sig sigraða.

Liðin mætast öðru sinni á Ásvöllum á mánudagskvöldið en vinna þarf þrjá leiki til þess að öðlast sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

Eftir jafnan leik framan af fyrri hálfleik komust Haukar fjórum mörkum yfir, 13:9, þegar skammt var til loka fyrri hálfleik. Mosfellingar áttu síðasta orðið og staðan var 13:10 í hálfleik.
Varnarleikur Aftureldingar styrktist til muna í síðari hálfleik sem lagði grunninn að því að liðinu tókst að snúa við taflinu.

Blær mætti til leiks

Athygli vakti að Blær Hinriksson, sem meiddist á ökkla í fyrsta leik Aftureldingar við Fram 16. apríl lék á ný með bikarmeisturunum. Blær skoraði þrjú mörk.

Mörk Aftureldingar: Ihor Kopyshynskyi 7, Birkir Benediktsson 7, Árni Bragi Eyjólfsson 6, Blær Hinriksson 4, Einar Ingi Hrafnsson 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 11, 42,3% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 2, 18,2%.

Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 11/3, Andri Már Rúnarsson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Heimir Óli Heimisson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 8, 25% – Matas Pranckevicus 1, 20%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -