- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skellurinn er í raun að falla fremur en stigaleysið

Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Engan bilbug er að finna á Kristini Björgúlfssyni, þjálfara karlaliðs ÍR, þrátt fyrir fall liðsins úr Olísdeild karla á dögunum. Hann segir að eitt og annað hefði breyst ef liðinu hefði tekist að krækja í sigra snemma á keppnistímabilinu. Huga hefði mátt betur að andlegri hlið leikmanna. Kristinn segir litlar breytingar verði á leikmannahópi ÍR-liðsins fyrir næsta keppnistímabil. Stefnan sé skýr. Byggt verði á uppöldum ÍR-ingum í Grill 66-deildinni á næsta keppnistímabili og stefnan tekin rakleitt upp í Olísdeildina á nýjan leik.

Handbolti.is sendi Kristni nokkrar spurningar sem hann svaraði hiklaust eins og honum einum er lagið.


Hvaða reynslu dregur þú af þessum vetri ykkar í Olísdeildinni?
„Það helsta sem ég dreg út úr vetrinum er hvað það er stutt á milli. Smáatriðin skipta gríðarlegu máli. Ef við hefðum bara verið tíu prósentum betri í nokkrum leikjum, hefðum við líklega náð í tvo til þrjá sigra. Hvað ef við hefðum unnið Þór á heimavelli í þriðju umferð og Fram á útivelli í fjórðu umferð? Þá hefði tímabilið örugglega spilast öðruvísi.“


Þótt vitað væri að það yrði á brattann að sækja í ljósi þeirra erfiðleika sem handknattleiksdeild ÍR stóð í fyrir ári þá hlýtur að vera skellur að falla án stiga og erfið staðreynd að kyngja?
„Það var ljóst að fall væri líklegt á okkur. Það vissi ég um leið og ég tók við. Ég lagði samt upp með annað og skellurinn er í raun að falla. Það hefði ekki skipt neinu máli með tvö stig eða ekki. Hefði vissulega verið skemmtilegra að geta landað sigri á heimavelli fyrir framan okkar fólk. En í lok dagsins er fall alltaf fall.“


Verður byggt á svipuðum leikmannahópi fyrir næsta keppnistímabil?
„Já, hópurinn okkar verður svipaður. Það verða smá breytingar en ekki stórvægilegar. Ég ætla mér að byggja ÍR upp á okkar mönnum. Reikna með meðalaldri leikmanna í kringum 20 ár.“


Þarf ekki að vinna í andlegu hliðinni eins og þeirri líkamlegu fyrir næsta keppnistímbil?
„Andlega vinnan er mikilvæg og í henni hefur verið unnið í ár. Þar hefðum við mögulega getað gert betur.“


Hvernig horfir þú til næstu leiktíðar í Grill 66-deildinni?
„Jákvæður fyrir því. Við ætlum okkur að mæta sterkir til leiks.“


Er ekki stefnan tekin rakleitt upp?
„Okkar markmið er að komast aftur á meðal þeirra bestu.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -