- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skipbrot á Skáni

Ungverjar fögnuðu ákaft eftir sigur á íslenska landsliðinu í riðlakeppni HM í Kristianstad í janúar. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ungverjar unnu Ísland með tveggja marka mun, 30:28, í annarri umferð D-riðils heimsmeistaramótins í handknattleik karla í Kristianstad Arena á Skáni. Íslenska liðið beið skipbrot á síðasta fjórðungi leiktímans og skoraði aðeins þrjú mörk síðustu 18 mínúturnar. Ungverjar gengu á lagið og skoruðu 11 mörk og unnu leikinn. Þeir komust í fyrsta sinn yfir í leiknum, 29:28, þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.

Undir lokið tapaðist boltinn margoft auk þess sem Roland Mikler vaknaði til lífsins í markinu eftir að hafa verið daufur í 50 mínútur.


Næsti leikur íslenska landsliðsins í riðlinum verður gegn Suður Kóreu á mánudaginn. Flautað verður til leiks klukkan 17.
Íslenska landsliðið var með yfirhöndina í hálfleik, 17:12, eftir að hafa leikið frábærlega, ekki síst í vörninni. Framan af síðari hálfleik virtist allt vera í blóma áfram. Átján mínútum fyrir leikslok var Ísland sex mörk yfir, 25:19, og með boltann í sókn. Þá má segja að kaflaskipti hafi orðið. Hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn og það var ekki fyrr en Ungverjarnir voru farnir að anda ofan í hálsmálið á íslensku leikmönnunum sem þjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson tók loksins leikhlé í stöðunni. 25:23. Engu var líkara en þjálfarinn væri frosinn á hliðarlínunni.


Eftir hléið lifnaði aðeins yfir leik íslenska liðsins og það komst þremur mörkum yfir með marki Bjarka Más Elíssonar, 28:25, sjö mínútum fyrir leikslok. Eftir það tók við undanhaldið og þjálfarinn horfði á spilaborgina hrynja til grunna.

Sóknirnar runnu áfram út í sandinn og ekki fékkst við neitt ráðið í vörninni. Markvarslan var heldur ekki góð. Allt lagðist á eitt.

Leikmenn voru þreyttir enda nánast búið að láta sömu leikmennina leika frá upphafi til enda í báðum leikjum mótsins til þessa. Fimm leikmenn af 16 komu ekki við sögu nema til þess að hita upp og tveir til viðbótar léku í samtals níu mínútu, þar af var annar þeirra markvörðu.

Í leiknum tapaðist orrusta. Stríðið heldur áfram. Ljóst er herforinginn þarf að hugsa sinn gang. Hann er kominn á gamalkunnar slóðir enda ekki þekktur fyrir að líta í eigin barm. Mistök eiga sér stað hjá öllum öðrum en honum.


Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 9, Ómar Ingi Magnússon 7/4, Elliði Snær Viðarsson 4, Aron Pálmarsson 3, Sigvaldi Björn Guðjónsson 3, Björgvin Páll Gústavsson 1, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9/1, Viktor Gísli Hallgrímsson 2.

Mörk Ungverjalands: Gabor Ancsin 6, Miklos Rosta 4, Zoltan Szita 4, Pedro Rodriguez Alvarez 4, Bendeguz Boka 3, Richard Bodo 3, Bence Banhidi 3, Mate Lekai 2, Zoran Ilic 1.
Varin skot: Roland Mikler 11, Márton Székely 1.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -