- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skotnýting og smáatriði fóru með leikinn

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, og Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði á HM í Egyptalandi í janúar 2021. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Varnarleikurinn var stórkostlegur og ég verð að hrósa liðinu í heild, það lagði hjarta sitt og sál í leikinn. Í sóknarleiknum þá vantar okkur langskot gegn flatri vörn, ekki síst hægra megin þar sem örvhentu skytturnar voru. Til viðbótar þá vantaði mjög mikið upp á nýtingu dauðafæra. Við lékum okkur í færi en skorum ekki,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari afar vonsvikinn eftir tapið fyrir Sviss, 20:18, á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Egyptalandi í dag.


Til að auka skotógnunina kom Kristján Örn inn í spilið í síðari hálfleik. Við vildum fá fleiri skot þeim megin á vellinum þar sem vörnin þeirra var flöt. Það gekk fyrst eftir að Kristján kom inn á en síðan fannst mér það þynnast út þegar á leikinn leið,“ sagði Guðmundur Þórður.
„Þrátt fyrir erfiðleika gegn svissnesku vörninni þá sköpuðum við okkur færi, fengum vítaköst og opin færi, en okkur brást of oft bogalistin, jafnt í fyrri sem seinni hálfleik. Í svona leik þar sem er svona lítið skorað þá munar um hvert marktækifæri sem fer forgörðum eins og að þessu sinni.“

Þrátt fyrir almenna ánægju með varnarleikinn þá sagðist Guðmundur vera vonsvikinn yfir tveimur atriðum. „Við hirtum ekki tvö fráköst undir lok leiksins þegar úrslitin voru kannski að ráðast. Menn voru ekki til staðar. Með þetta er ég mjög óánægður.“

Guðmundur tók undir það að ef lið fá ekki fleiri en 20 mörk á sig þá eiga þau að vinna leiki eins og nútíma handknattleikur er. „Því miður þá vantaði okkur skotógnun fyrir utan. Við vorum alltof háðir því að fá mörk eftir gegnumbrot. En því miður þá nýtum við ekki færin. Það eru svo mörg smáatriði sem drepa okkur að þessu sinni,“ sagði Guðmundur Þórður sem var einnig afar óánægður með hraðaupphlaupin.

„Menn voru mjög óöruggir og hikandi og ég hef ekki skýringu af hverju. Okkar ætlan var að keyra upp í hvert skipti sem færi gafst á hraðaupphlaupi,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -