- Auglýsing -
Handknattleikskonan Birta Rún Grétarsdóttir, leikmaður Oppsal hefur mætt miklum mótbyr á handknattleiksvellinum frá haustinu 2020 þegar hún sleit krossband í hægra hné. Af þeim sökum var hún frá keppni í rúmt ár. Þar með er ekki öll sagan sögð.
Birta Rún var komin á góðan rekspöl þegar krossband í vinstra hné slitnaði í febrúar. Birta Rún sagði í skilaboðum til handbolta.is að hún stefni ótrauð á að mæta aftur út á handboltavöllinn í mars á næsta ári. Hún leggur ekki árar í bát þrátt fyrir mótlæti.
Birta Rún, sem var í HK áður en hún fór til Noregs, tók þátt í nokkrum leikjum Oppsal í norsku úrvalsdeildinni frá þeim tíma að hún kom aftur út á völlinn í byrjun vetrar og þangað til að hún varð fyrir meiðslum í vinstra hné í febrúar. M.a. var Birta Rún valin í B-landsliðið sem tók þátt í æfingamóti í Tékklandi í nóvember.
Birta Rún á ár eftir af samningi sínum við Óslóarliðið Oppsal sem hafnaði í 12. sæti af 14 liðum og féll úr úrvalsdeildinni í vor og tekur þátt í 1. deild á næstu leiktíð.
- Auglýsing -