- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sló til þegar Gunni hringdi

Úlfar Páll Monsi Þórðarson var markahæstur hjá Aftureldingu í kvöld. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Úlfar Páll Monsi Þórðarson hefur komið eins og stormsveipur inn í Aftureldingarliðið á leiktíðinni og markahæsti leikmaður þess eftir þrjár umferðir með 17 mörk. Hann er frár á fæti og lipur auk þess að nýta tækifæri sín vel í hægra horninu þar sem hann hefur staðið vaktina lengst af í leikjum Aftureldingar í haust. Þá er Monsi útsjónarsamur varnarmaður og prýðileg vítaskytta þótt honum hafi reyndar brugðist bogalistin í tvígang með stuttu millibili í leiknum við Selfoss á fimmtudagkvöldið, rétt áður en hann spjallaði við handbolta.is.


„Þetta voru tvö rosalega léleg víti hjá mér,“ sagði Úlfur Páll og stundi þegar eftir leikinn. Hann lét vítaköstin ekki slá sig út af laginu heldur fór inn úr þröngu færi skömmu síðar og skoraði örugglega framhjá góðum markverði Selfoss-liðsins, Vlius Rasimas.

Margir sem keppast um stöðurnar


Um tilurð þess að Monsi kom til liðs við Aftureldingu segir hann.
„Gunni [Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar] hringdi í mig í vor og spurði hvort ég hefði áhuga á að koma í Aftureldingu. Af því að margir eru að keppast um vinstri hornamannastöðurnar hjá liðunum í deildinni þá sá ég ekki endilega fram á að fá mörg svipuð tilboð. Þess vegna sló ég til þegar Gunni bauð mér hlutverki í Aftureldingarliðinu. Ég hef því verið hjá Aftureldingu síðan og í sumar og líst bara vel á,“ sagði Úlfar Páll Monsi sem er tvítugur og lék með Stjörnunni á síðasta tímabili sem lánsmaður frá Val.

Krúttlegt nafn sem á vel við mig


Móðir Monsa er af tælensku bergi brotin og þaðan kemur nafnið sem hann er alltaf kallaður, Monsi. Hann segir það vera í höfuðið á afa móður sinnir sem hét Mon. „Ég hef verið kallaður Monsi síðan ég man eftir mér. Þetta er snoturt og krúttlegt nafn sem á bara vel við mig,“ segir hann glaður í bragði.


Monsi lék upp yngri flokkana hjá Val og fékk síðan nokkur tækifæri með meistaraflokki Vals áður enn hann fór í Stjörnuna fyrir ári sem lánsmaður frá Val.

Fékk frábæran skóla hjá Rúnari

„Ég fékk frábæran skóla hjá Rúnari þjálfara Stjörnunnar í fyrra og öðlaðist talsverða leikreynslu. Núna hef ég fengið alvöru tækifæri hjá Aftureldingu,” sagði Monsi sem lék leikinn við Selfoss, sem áður er getið, frá upphafi til enda vegna þess að Gunnar Kristinn Þórsson, sem einnig leikur í vinstra horni, var í sóttkví. „Þess vegna var ég á vaktinni frá byrjun til enda.“


Monsi segist vera ánægður hjá Aftureldingu. „Strákarnir í liðinu og Gunni eru æðislegir og allir hafa tekið vel á móti mér. Ég nýt mín vel og líður eins og ég hafi bara alltaf verið hérna. Stemningin er flott. Við erum með mjög gott lið og ætlum okkur að ná langt sem lið.“

Hefur trú á eigin hæfileikum


Spurður hvort hann hafi ekki leitt hugann að því að hann gæti kannski lent í því hlutverki að sitja meira eða minna á bekknum svaraði Monsi að hann hefði aldrei efast um að hann gæti ekki komst í stórt hlutverk hjá Aftureldingu . „Ég hef mikla trú á eigin getu og hef alltaf gert. Ég ætla mér stóra hluti í handboltanum. Stefnan er að komast í A-landsliðið sem fyst og út í atvinnumennsku eftir tvö til þrjú. Ég á alveg að geta það,“ sagði Monsi ákveðinn en hann hefur leikið með yngri landsliðunum í handknattleik.

Í mörg horn að líta


Monsi stendur á tvítugu, stundar fjarnám og er einnig í atvinnuleit auk þess að hafa mikinn metnað í handboltanum. Óhætt er að segja að hann hafi mörg járn í eldinum.


Spurður um styrkleika sína svaraði Monsi um hæl:„Hraðinn er tvímælalaust minn helsti styrkleiki auk þess sem ég nýti færin mín vel, ja svona yfirleitt,“ bætti Monsi við með bros á vör um leið og blaðamaður kvaddi hann. Sennilega eiga áhugamenn um handbolta eftir að sjá og heyra meira af þessum pilti á næstu árum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -