- Auglýsing -
- Auglýsing -

Snorri Steinn ráðinn til þriggja ára – Arnór verður aðstoðarmaður

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari og Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Snorri Steinn Guðjónsson var í dag ráðinn landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Samningur hans við Handknattleikssamband Íslands er til þriggja ára eða fram á mitt árið 2026.

Aðstoðarþjálfari verður frá sama tíma Arnór Atlason, fyrrverandi landsliðsmaður og núverandi aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold. Snorri Steinn og Arnór þekkjast afar vel og sagði Snorri Steinn m.a. á blaðamannafundi að þeir félagar hefðu á árum áður slegið því fram í gamni að í framtíðinni tækju þeir einn góðan veðurdag saman við þjálfun íslenska landsliðsins.

Hættir hjá Val

Um leið og Snorri Steinn tekur við starfi landsliðsþjálfara hættir hann þjálfun karlaliðs Vals sem hann hefur stýrt undanfarin sex ár m.a. unnið Íslandsmeistaratitilinn í tvígang og bikarmeistaratitilinn jafn oft.

Einbeittir við undirritun samningsins í dag, Snorri Steinn t.v. og Guðmundur B., formaður HSÍ. Mynd/Ívar

Leikir í nóvember – stórmót í janúar

Fyrsta stóra verkefni Snorra Steins verður þátttaka íslenska landsliðsins á Evrópumótinu sem fram fer í Þýskalandi í janúar. Ákveðið hefur verið að landsliðið komi saman til æfinga í lok október eða í byrjun nóvember. Stefnt er að leika tvo landsleiki þá auk þess sem æft verður og fundað.

Á þriðja hundrað landsleikir

Snorri Steinn er 41 árs gamall. Hann lék 257 landsleiki og skoraði 846 landsliðsmörk frá 2001 til 2016 og var þátttakandi á nær öllum stórmótum landsliðsins á þeim tíma, m.a. Ólympíuleikunum í Peking þar sem landsliðið vann silfurverðlaun og á EM 2010 er bronsverðlaun komu í hlut íslenska landsliðsins.

Sem leikmaður lék Snorri Steinn með Val, þýsku liðunum TV Großwallstadt , GWD Minden, Rhein-Neckar Löwen, var í Danmörku hjá AG København og GOG og í Frakkalandi með Sélestat og USAM Nîmes frá 2003 til 2017.

Samhliða starfi sínu sem landsliðsþjálfari mun Snorri Steinn koma af krafti inn í útbreiðslumál Handknattleikssambandsins en fyrir dyrum stendur að slá í klárinn í þeim efnum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -