- Auglýsing -

Snúum við taflinu á Ásvöllum

Aron Kristjánsson hættir þjálfun Hauka í lok leiktíðar. Mynd/Björgvin Franz

„Ég hefði viljað sleppa með jafntefli eða kannski eins marks tap úr því sem komið var. Ég er óánægður með að við skyldum missa þá tveimur mörkum fram úr okkur á síðustu sekúndum,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að tveggja mark tap Hauka, 28:26, fyrir CSM Focsani í fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik. Leikið var í Rúmeníu.


„Tveggja mínútna brottvísun fyrir litlar sakir einni og hálfri mínútu fyrir leikslok var helsta ástæðan fyrir að við náðum ekki að halda jafnri stöðu til loka,“ sagði Aron en leikmenn Focsani skoruðu tvö síðustu mörk leiksins.

Aron sagði úrslitin þó vera sæmilega viðunandi því búast má við öllu í leikjum í Rúmeníu, ekki síst í Evrópbikarkeppninni þar sem utanumhald leikja er ekki í eins föstum skoruðum og til dæmis í Meistaradeildinni.

Aðstæður höfðu sitt að segja

„Sannarlega hefði ég viljað vinna leikinn. Mér fannst við líka vera betri lengst af. Aðstæðurnar höfðu einnig sitt að segja. Dómgæslan var eins og hún var og eins var völlurinn erfiður með mikilli stemningu og fullu húsi. Til viðbótar komu tveir leikkaflar þar sem við vorum ekki nægilega skynsamir í okkar leik sem varð þess valdandi að Focsani skoraði nokkur mörk eftir hraðaupphlaup.“

Snúa taflinu við

Liðin mætast öðru sinni á Ásvöllum í Hafnarfirði á næsta laugardag. Aron segir að þrátt fyrir tapið geri hann sér vonir um að snúa við taflinu á heimavelli eftir viku og biðlar til Haukamanna eftir stuðningi.

„Ég hef fulla trú á að við getum bætt það sem þarf að bæta í okkar leik svo við getum unnið leikinn á Ásvöllum og komist áfram í keppninni,“ sagði Aron.

Furðuleg skýring á rauða spjaldi

Mikla undrun vakti þegar Aron Rafn Eðvarðsson markvörður fékk rautt spjald áður en síðari hálfleikur hófst fyrir að hafa stutt full harkalega á þunna hurð sem skilur að keppnissalinn og álmu með búningsherbergjum í keppnishúsinu í Focsani. Ekki sá á hurðinni.

„Þetta er furðulegasta skýring sem maður hefur fengið fyrir rauðu spjald. Ég hef aldrei heyrt annað eins. Það verður fróðlegt að sjá hvaða skýringu dómarar setja í skýrsluna sem þeir senda til EHF,“ sagði Aron sem var skiljanlega mjög ósáttur við þessa ákvörðun dómaranna sem virtist tekin af hreinum geðþótta en var e.t.v í takti við það sem tók við í síðari hálfleik þegar dómararnir skiptu um takt.

Síðari hálfleikur var algjört djók

„Síðari hálfleikur var algjört djók. Leikmenn Focsani fengu nær endalaust tvöfalt tækifæri en við ekki. Focsaniliðið fékk ruðningsdóma sem við fengum ekki. Heimamenn fengu lengri sóknir og svo framvegis.

Dómgæslan var í takti við það sem ég átti von á fyrir leikinn og hafði búið mig undir að gæti orðið raunin. Mig grunaði að það gæti orðið á brattann að sækja varðandi dómgæsluna og sú varð raunin,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari karlaliðs Hauka í samtali við handbolta.is í gærkvöld.


Haukar fóru rakleitt frá Focsani eftir leikinn í gærkvöld eins og til stóð og gistu í nótt á hóteli nærri alþjóða flugvellinum í Búkarest. Þeir koma heim til Íslands í dag.


Hér fyrir neðan er hlekkur á viðureign CSM Focsani og Hauka í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -