Sigur danska liðsins Aalborg Håndbold á ungverska stórliðinu Veszprém í Ungverjalandi í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld er sögulegur. Um er að ræða fyrsta sigur félagsliðs frá Norðurlöndunum á heimavelli ungverska liðsins. Valur og Haukar eru á meðal þeirra liða sem hafa ekki haft erindi sem erfiði í gegnum tíðina.
Á þetta bendir danski handknattleiksmaðurinn Rasmus Boysen á Twitter-síðu sinni sem afrit fylgir af hér að neðan. Tölfræði Boysen nær aftur til keppnistímabilsins 1994/1995 þegar Meistaradeild Evrópu var sett á laggirnar í stað Evrópukeppni Meistaraliða.
Valur mætti Veszprém í riðlakeppni Meistaradeildar leiktíðina 2006/2007. Haukar voru í riðli með ungverska liðinu árið eftir.
Arnór Atlason, fyrrverandi landsliðsmaður, er aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold, og hefur verið síðustu þrjú ár eftir að hann hætti að leika með liðinu.
Boysen bendir ennfremur á að Barcelona, Ciudad Real, Montpellier, Kiel, PSG, Kielce og Rhein-Neckar Löwen auk Aalborg séu einu liðin sem hafa sótt sigur í greipar Veszprém á heimavelli á undanförum aldarfjórðungi.
FRÉTTAVAKTIN - Handbolti.is:
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
Nýlegt á handbolti.is
- Auglýsing -