- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sóknarleikurinn nærri upp á 10

Sigvaldi Björn Guðjónsson þekkir vel til í norskum handknattleik. Mynd /EPA
- Auglýsing -

„Þetta hefur verið svolítið svona hjá okkur á mótinu, það hefur vantað einhvern herslumun upp á. Við höfum gert einföld mistök, farið illa með góð marktækifæri, fengið á okkur ódýra brottrekstra,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Kaíró eftir síðasta leik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu 2021 gegn Noregi. Niðurstaðan tveggja marka tap í annars stórskemmtilegum leik á að horfa.


„Í kvöld var sóknarleikurinn okkar nærri því upp á tíu. Að skora 33 mörk gegn norska landsliðinu er mjög gott,“ sagði Sigvaldi Björn sem viðurkenndi að eftir erfiðar upphafsmínútur í síðari hálfleik hafi verið erfitt að elta norska landsliðið. Það sé það öflugt með Sander Sagosen í aðalhlutverki, einn besta ef ekki besta handknattleiksmann heims um þessar mundir.

Hlakkar til framtíðarinnar

„Seinni bylgja Norðmanna er frábær. Þeir eru fljótir að refsa okkur eins og öðrum andstæðingum sínum með henni. Við vorum komnir þó með leikinn niður í eitt mark þegar skammt var eftir,“ sagði Sigvaldi Björn og bætti við.
„Ég hlakka til að sjá hvernig leikur okkar verður þegar varnar,- og sóknarleikurinn fellur saman í einum leik. Þá held ég að liðið verði mjög gott. Við verðum bara að halda áfram á þeirri braut sem við erum á.“
Sigvaldi Björn sagði það taka mikið á að leika gegn norska landsliðinu sem væri mjög líkamlega sterkt. „Við erum aðeins yngri og eigum nokkur ár á þá flesta.“
 
Spurður hvaða lærdóm liðið geti dregið af þessari keppni sagði Sigvaldi Björn að áfram yrði að vinna í bæta þá frábæru vörn sem liðið hafi leikið allt mótið þangað til í dag.

Verðum hrikalega sterkir

„Markvarslan batnar líka mikið þegar vörnin nær svona vel saman. Einnig verðum við að vinna betur í að útfæra hraðaupphlaupin okkar. Sóknarleikurinn í tveimur síðustu leikjunum var betri en í fyrstu leikjum mótsins. Meira flot kom á boltann og það er nokkuð sem við viljum. Gísli Þorgeir var geggjaður í tveimur síðustu leikjum. Hann skapaði mikið af færum fyrir skytturnar. Sóknarleikurinn verður í áframhaldandi þróun og verður bara betri með hverju verkefninu sem er framundan. Ég tala nú ekki um þegar við fáum Aron, Janus, Hauk og kannski Alexander inn í dæmið með okkur. Þá verðum við hrikalega sterkir,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Dr. Hassan Moustafa íþróttahöllinni í Kaíró í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -