- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sostaric veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið

Nenad Sostaric hefur ekki undan að svara símtölum og skilaboðum þessa dagana. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Það nánast rýkur úr símanum hjá þjálfara króatíska kvennalandsliðsins, Nenad Sostaric. Hann hefur ekki haft undan að svara símtölum og skilaboðum sem rignt hafa yfir hann nánast í bókstaflegri merkingu síðustu daga. Ástæðan fyrir þessum ágangi er frábær árangur landsliðs Króatíu á EM. Liðið vann allar þrjár viðureignir sína í riðlakeppninni og er nú komið í millriðlakeppnina með sterka stöðu, fjögur stig. Árangurinn hefur komið fólki í Króatíu í opna skjöldu þar sem kvennalandsliðið hefur ekki náð slíkum árangri á EM í háa herranst tíð.

„Heima í Króatíu ertu annað hvort hetja eða skúrkur á stórmótum. Það er ekkert til þar á milli,“ segir Sostaric í samtali við danska fjölmiðla.
Meðal þeirra sem hafa sett sig í samband við Sostaric með hamingju,- og hvatningaóskir er knattspyrnugoðið Luka Modric, handknattleiksstjarnan Luka Cindric og þjálfari karlaliðsins Lino Cervar.

„Allir eru í sjöunda himni og glaðir fyrir okkar hönd,“ segir Sostaric sem hefur marga fjöruna sopið en veit engu að síður vart hvaðan á sig stendur veðrið um þessar mundir þótt hann viðurkenni að árangurinn sé betri en reiknað hafi verið með.

Sigur á erkifjendum


Ekki spillti sigur á erkifjendunum og næstu nágrönnum, landsliði Serba í gærkvöld, fyrir gleði Króata. Þjóðin sat nánast límd við sjónvarpsskjái meðan leikurinn fór fram enda eru viðureignir þjóðanna meira en venjulegur landsleikur. Serbar féllu úr leik á EM með tapinu.

Alltaf annars flokks

„Ég er fyrst og fremst hamingjusamur yfir að kvennalandsliðið í handbolta er nú á hvers manns vörum í Króatíu. Því miður þá hefur kvennalandsliðið verið annars flokks í margra augum. Heima er oft talað um handbolta og kvennahandbolta eins og um tvær íþróttagreinar væri að ræða sem er tóm della þótt vissulega sé munur á leik kynjanna,“ segir Nenad Sostaric, landsliðsþjálfari Króata í handknattleik kvenna.

Sostaric er 61 árs gamall. Þjálfaraferill hans spannar yfir fjóra áratugi. Hann hefur verið þjálfari kvennalandsliðsins í þrjú ár en var einnig þjálfari landsliðsins 1997 til 1998 og aftur frá 2001 til 2003.

Eftir að hafa unnið Ungverja, Hollendinga og Serba í riðlakeppninni þá bíða leikir við landslið Rúmena, Þjóðverja og Noregs í milliriðlakeppni EM.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -