- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spámaður vikunnar – stórleikur strax í kvöld

Lovísa Thompson sækir að vörn Fram í úrslitum bikarkeppninnar í mars. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Spámaður vikunnar er nýr liður sem handbolti.is hleypti af stokkunum í gær þegar önnur umferð Olísdeildar karla hófst. Framvegis verður „spámaðurinn“ fastur liður að morgni þess dags sem umferð hefst í Olísdeildum karla og kvenna.

Stella Sigurðardóttir, fyrrverandi stórskytta hjá Fram, danska liðinu SönderjyskE og landsliðskona spáir í spilin fyrir leiki annarrar umferðar Olísdeildar kvenna sem leikin verður í kvöld á og morgun. Stella varð Íslandsmeistari með Fram 2013 og bikarmeistari 2010 og 2011. Hún lék 72 landsleiki og skoraði 205 mörk. Stella var í íslenska landsliðinu sem tók þátt í EM 2010, 2012 og HM 2011. Hún varð tilneydd til að hætta í handbolta 2014 vegna afleiðinga af ítrekuðum höfuðhöggum.

Stella er spámaður vikunnar

Stella Sigurðardóttir.

Valur – Fram, föstudagur klukkan 20

Enginn smá slagur sem við fáum strax í annarri umferð. Þessi tvö lið hafa verið að berjast um alla titla síðustu ár og leikirnir þeirra á milli alltaf verið mikil skemmtun. FRAM stelpur eru hungraðar í að sýna hvað í þeim býr eftir tvo erfiða leiki í upphafi tímabils. Valsliðið virkaði sannfærandi á móti Haukum og koma eflaust fullar sjálfstrausts í leikinn. Ég er mjög spennt að sjá hvað stórskytturnar Lovísa Tompson og Ragnheiður Júlíusdóttir munu bjóða okkur upp á – en þær eru miklar markadrottningar og áttu báðar mjög góðan leik í fyrstu umferð. Þessi leikur mun bjóða uppá háspennu frá byrjun leiks og ég held að gamla klisjan markvarsla og hraðaupphlaup mun vega þungt. Ég trúi því að mínar konur í FRAM sigri í þessum leik naumlega og úrslitin munu ráðast á lokasekúndum leiksins, 23:24.

KA/Þór – Stjarnan, laugardagur klukkan 14.30

KA/Þór hefur verið að spila mjög vel í upphafi tímabils og Rut Jónsdóttir er að gera mikið fyrir liðið – enda frábær leikmaður. Hún hefur gefið liðinu aukið sjálfstraust og þær hafa verið að spila mjög skemmtilegan sóknarleik. Það verður erfitt fyrir Stjörnuna að fara norður og sækja stig. Mér finnst eins og Stjarnan sé ennþá að fínpússa sitt lið, og læra inn á hvor aðra enda með mikið af nýjum leikmönnum. Ég held að Stjarnan eigi eftir að styrkjast með hverjum leiknum í vetur. Ég spái því að KA/Þór vinni þennan leik með tveimur mörkum, 27:25.

Haukar – FH, laugardagur klukkan 14.45

Vegna fjarveru FH í úrvalsdeildinni síðustu ár fáum við fyrsta Hafnarfjarðarslaginn í langan tíma. Það vita allir hvað þessir leikir eru skemmtilegir og ég býst við miklum baráttuleik. Ég hef ekki mikið séð til FH liðsins, en þær komu mér á óvart á móti Stjörnunni í fyrstu umferð. Fullt af flottum og efnilegum stelpum sem eiga eftir að öðlast dýrmæta reynslu á þessu tímabili. Ég held hins vegar að Haukar séu of stór biti fyrir FH liðið, þrátt fyrir að vera með slakara lið en síðustu ár. Haukar vinna þennan leik með fimm mörkum, 29:24.

HK – ÍBV, laugardagur klukkan 16.30

HK stelpur hafa verið að komast nær og nær toppliðunum með hverju tímabilinu og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þær fari ekki skrefinu lengra á þessu tímabili. Þær eru með spennandi lið af eldri og reyndari leikmönnum ásamt ungum og efnilegum stelpum. Þær eiga eftir að styrkjast enn meira eftir því sem líður á tímabilið þegar þær fá sterka pósta til baka eftir meiðsli. ÍBV liðið er með frábæra útilínu og það verður forvitnilegt að sjá hvernig þær munu spila sig saman. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Birna Berg Haraldsdóttir og Sunna Jónsdóttir eru allar frábærir skotmenn og það verður erfitt fyrir lið að verjast þeim. Væntingar til liðsins eru eflaust miklar í Vestmannaeyjum og það kæmi mér ekki á óvart ef þær myndu sigla heim til Eyja með einhvern bikar á tímabilinu. Ég spái því að þetta verði jafn og spennandi leikur tveggja sterkra liða, en hallast að því að ÍBV sigri að lokum, 25:27.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -