Spámaður vikunnar er efnisliður sem handbolti.is hleypti af stokkunum í síðustu viku þegar önnur umferð Olísdeildanna fór fram. Spámaðurinn er fastur liður að morgni þess dags sem umferð hefst í Olísdeildum karla og kvenna.
Í kvöld hefst þriðja umferð Olísdeildar karla með þremur leikjum.
Stefán Árnason er spámaður þriðju umferðar í Olísdeild karla. Stefán hefur frá blautu barnsbeini lifað og hrærst í kringum handbolta og um árabil verið þjálfari barna, unglinga og fullorðinna. Meðal annars þjálfað hjá ÍBV, Selfossi og KA þar sem hann hætti þjálfun meistaraflokks karla í sumar. Stefán þjálfar nú U-lið KA og yngri flokka hjá félaginu.
Stefán er spámaður vikunnar
ÍR – Þór, fimmtudagur kl. 19.30 – Austurberg
10 stiga leikur eins og einn sagði hér um árið. ÍR-ingar hafa tapað illa í fyrstu tveimur umferðunum og hefur þeirra útgáfa af 5-1 ÍBV vörninni hefur verið vægast sagt slök. Þór hefur verið í tveimur hörkuleikjum í upphafi móts, eins og vill oft verða hjá nýliðum, og náð að halda hraðanum niðri í þeim leikjum sem þeir hafa spilað.
Spurningin er hvort ÍR hafi lært af því hvernig FH spilaði seinustu 10 mínúturnar gegn Þór. Þegar FH nýtti sér það sem Afturelding gerði ekki í fyrstu umferðinni og einangraði þristana í Þórsliðinu og sótti á þá, en þristapar Þórs í meginþorra leikjanna til þessa hefur ekki spilað handbolta í mörg ár.
Leikur Þórsara hentar ÍR nokkuð vel og spái ég heimasigri í þessum leik. Þór mun ekki keyra á þá líkt og Valur gerði. Þar sem Þór hefur ekki örvhentan leikmann fyrir utan í þessum leik á ég von á því að 5-1 vörn þeirra muni smella betur á móti Þór, sér í lagi ef ÍR-ingar leggja áherslu á að loka á hornamenn Þórs líkt og FH gerði í seinustu umferð.
ÍR vinnur, 25:23.
Afturelding – Selfoss, fimmtudagur kl. 19.30 – Varmá
Lið sem hafa ekki tapað enn í fyrstu tveimur umferðunum en frammistaða beggja liða þó verið ansi kaflaskipt. Miklar breytingar á báðum liðum frá síðasta tímabili og aðrir menn að taka ábyrgðina en hefur verið hjá liðunum á undanförnum árum.
Gumundur Hólmar heldur betur verið að dúndra á markið fyrir Selfoss-liðið og Hergeir Grímsson í toppformi á miðjunni. Hergeir er uppáhalds leikmaðurinn minn í deildinni þetta árið ásamt Andra Snæ Stefánssyni. Miðað við fyrstu tvo leikina virðist Dóri Sigfúsar vera búinn að finna þá leikmenn sem hann treystir í Selfoss liðinu og ætlar að spila á. Mun reyna mikið á Aftureldingu í þessum leik sem hefur átt í erfiðleikum til þessa með lið sem reiknað var með að yrðu neðar en þeir í deildinni. Náð í stigin þó.
Nú mætir Afturelding sterkara liði en í tveimur fystu umferðunum. Þetta verður alltaf leikur en Selfoss verður skrefinu á undan og vinnur að lokum, 25:27.
FH – Fram, fimmtudagur kl. 19.45 – Kaplakriki
Það breytist fátt hjá FH liðinu en Ásbjörn Friðriksson hefur heldur betur sýnt gæði sín í fyrstu leikjunum, enn og aftur. Hann sá alveg um að klára Þórsarana í seinasta leik. Finnst FH samt eiga töluvert inni miðað við fyrstu leiki en held að þeir séu að komast í gang núna og ég sé þá alveg taka á sprett og vinna þó nokkra leiki í röð.
Fram hefur ekki byrjað mótið á sannfærandi hátt en baráttustig í seinasta leik ætti að gefa þeim eitthvað inn í framhaldið. Töluvert taktleysi sóknarlega á löngum köflum hlýtur að valda Basta áhyggjum en Fram endar sóknir sínar oft illa. Verið óstöðugir undanfarin ár og stefna í að verða það aftur.
FH nær strax algjörum tökum á þessum leik og vinnur, 31:21.
Stjarnan – Haukar, föstudagur kl. 20.30 – TM-höllin
Haukarnir virðast heldur betur komnir í gang með stórsigri á ÍBV í seinustu umferð. Þeir verða með þéttasta liðið í deildinni í vetur og greinilegt að þeir eru vaknaðir eftir slaka frammistöðu í fyrsta leik. Aron Kristjáns er að byggja á gömlum og þekktum fræðum á Ásvöllum en það mun verða erfitt að skora á þá eftir því sem líður á tímabilið. Virka líka í ótrúlega góðu formi.
Stjarnan bætti mikið af leikmönnum við sig í sumar en eins og oft áður fara þeir hægt af stað. Verið í góðum stöðum en farið illa með í báðum leikjum. Fyrirfram hefði maður gefið sér að Stjörnumenn yrði komnir með alla vega einn sigur á þessum tímapunkti.
Þetta er ekki leikurinn sem Patti vildi eiga í 3. umferð leitandi að fyrsta sigrinum sínum. Fyrsti sigurinn kemur heldur ekki í þessum leik því Haukar vinna sannfærandi 24:28.
KA – Grótta, laugardagur kl. 17 – KA-heimili
Forvitnilegur leikur. Tvö lið sem hafa verið að spila mikið 7 á 6 í fyrstu umferðunum og má fastlega gera ráð fyrir að sjá það frá báðum liðum í þessum leik. Leikurinn gæti stjórnast af því hvort liðið nær að verjast því betur.
KA verið með mjög öfluga 6-0 vörn sem hefur haldið lengst af í fyrstu tveimur leikjunum. Nicholas Satchwell hefur einnig komið sterkur inn í KA-liðið og varði ótrúlega vel gegn Selfossi í seinustu umferð í leik sem KA hefði getað tekið tvö stig úr.
Gróttumenn voru í stöðu til að vinna báða leikina til þessa og á það líklega eftir að koma í bakið á þeim að hafa ekki náð í sigur miðað við möguleikana á því en svona sénsar bjóðast ekki í hverjum leik.
Verður hörkuleikur fyrir norðan en á von á því að KA sigli framúr hægt og rólega, 24:20 fyrir KA.
ÍBV – Valur, laugardagur kl. 17.30 – Vestmannaeyjar
ÍBV leit nokkuð vel út gegn ÍR í fyrstu umferð eftir að hafa verið smá stund í gang en liðið lenti á vegg gegn Haukum. Eyjamenn munu mæta tvíefldir til baka á heimavelli í þennan leik. Það gerir mjög mikið fyrir þá að fá Theódór inn en ÍBV er trúlega best mannaða lið landsins í báðum hornastöðunum og á línunni. Veturinn hjá þeim mun hins vegar ráðast af frammistöðu útilínunnar sem virkaði bitlaus gegn Haukum. Spurningin fyrir þá er hvort þeir fái almennilega skotógn frá 1-2 leikmönnum utan af velli í vetur.
Valsmenn, eru með lang markahæsta lið deildarinnar til þessa, og kemur það ekkert á óvart. Keyra á háu tempói og það lið sem ætti að vera lang mest rútínerað og drillað í deildinni í upphafi móts, ásamt kannski FH, enda litlar breytingar orðið á liðinu.
Valur skorar þó ekki eins mikið í þessum leik og þeir hafa verið að gera. Þeir gætu líka þurft meiri markvörslu til að vinna leikinn og spurning hvort hún komi ekki frá Martin Nágy í þetta skiptið. Spái hörkuleik, kraftmiklu Eyjaliði en Valur vinnur, 26:27.