- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spennandi áskorun að fást við

Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard í Austurríki fagnaði sigri í bikarkeppninni í dag. Mynd/Alexandra Köß
- Auglýsing -

Handknattleiksþjálfari Hannes Jón Jónsson færði sig um set í sumar og fluttist án ný yfir landamærin til Austurríkis eftir tveggja ára veru í Þýskalandi við stjórnvölin hjá Bietigheim. Hannes Jón réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í Austurríki því hann tók við þjálfun austurrísku meistaranna í Alpla í Hard við Bodensee.


„Þetta er sannarlega áskorun en spennandi að fást við hana,“ sagði Hannes Jón þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans.

Alpla HC Hard hefur sjö sinnum unnið austurríska meistaratitilinn, 2003, 2012, 2013, 2014, 2015, 2017 og 2021. Fimm sinnum hefur lið félagsins staðið uppi sem sigurvegari í bikarkeppninni, 2005, 2008, 2015 og 2018. Félagið er í Voralberg, er grannlið Bregenz, við Bodensevatnið, nærri landamærum Austurríkis við Sviss og Þýskaland.

„Það áttu sér stað nokkrar breytingar á liðinu fyrir leiktíðina. Fimm leikmenn fóru og fjórir bættust í hópinn. Þar á meðal yfirgaf öll miðjublokkin í vörninni liðið. Hana verður að endurnýja. Auk þess koma inn yngri heimamenn sem menn vilja að lögð verði meiri áhersla á. Engu að síður er stefnt að því að því að vinna alla titla sem eru í boði í Austurríki. Ég er spenntur fyrir þessu,“ sagði Hannes Jón sem hefur komið sér vel fyrir í Hard með eiginkonu og þremur börnum.

Aukin áhersla á heimamenn

„Í gegnum tíðina hefur Hard yfirleitt verið með gamalt lið og fáa uppalda stráka. Þessu vilja menn breyta og vera með fleiri uppalda leikmenn en halda um leið í vissa reynslu hjá eldri leikmönnum. Nú er ég til dæmis með með unga heimamenn í hægra horninu og enga aðra í þá stöðu. Það áskorun að koma inn í þetta verkefni,“ sagði Hannes Jón ennfremur.


Hannes þekkir vel til í austurrískum handknattleik eftir að hafa þjálfað West Wien frá 2015 til 2019 með góðum árangri.

Hannes Jón er 41 árs gamall. Hann tók við þjálfun Alpla Hard í sumar. Áður var Hannes Jón þjálfari West Wien frá 2015 til 2019 og Bietigheim í Þýskalandi 2019 til 2021. Áður en Hannes Jón flutti frá Íslandi 2005 lék hann með Val, Selfossi og ÍR. Úti lék hann með Ajax og Fredericia í Danmörku, Elverum í Noregi, og þýsku liðunum Hannover-Burgdorf og Eisenach. Ferlinum lauk hjá West Wien í Austurríki leiktíðina 2015/2016. Hannes Jón lék 36 A-landsleiki og var m.a. í landsliðinu á EM 2008 í Noregi.


Tímabilið byrjar af krafti hjá Hannesi Jóni og lærisveinum hans. Þeir mæta franska liðinu Toulouse í 1. umferð Evrópudeildarinnar á heimavelli síðdegis á morgun og í Frakklandi viku síðar. Til viðbótar leikur Alpla Hard við HC Fivers í meistarakeppninni í Austurríki á miðvikudagskvöld.

Hefði viljað mæta Val

„Það var blóðugt að fá ekki Val í Evrópukeppninni. Þegar kom að okkur voru aðeins tvö lið eftir í pottinum, Valur og Toulouse. Valur var draumaliðið sem ég vildi mæta en Toulouse var eitt fjögurra sem ég vildi síst mæta. Það hefði verið gaman að koma heim og leika við Snorra og félaga.


Við erum klárlega „underdogs“ í leikjunum við Toulouse en látum það ekki hafa áhrif á okkur. Við förum bratt inn í tímabilið sem er bara flott. Menn hafa verið búnir undir það á undirbúningstímabilinu að vera klárir í slaginn frá upphafi,“ sagði Hannes Jón Jónsson þjálfari austurríska meistaraliðsins Alpla Hard.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -