- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Staðan er bara galopin“

Aron Kristjánsson. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

„Þetta er bara hörkueinvígi eins og sást á þessum hörkuleik tveggja frábærra liða,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka við handbolta.is eftir tap Hauka fyrir Val, 32:29, í fyrri viðureign liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í Origohöllinni á Hlíðarenda í kvöld.


„Þeir keyrðu hratt á okkur fyrri hálfleik og skoruðu mikið hjá okkur eftir hraða miðju og eins af níu metrunum. Mér fannst við ná mikið betri tökum á varnarleiknum í síðari hálfleik auk þess sem Björgvin Páll var frábær í markinu í síðari hálfleik,“ sagði Aron ennfremur en staðan var 19:14 fyrir Val að loknum fyrri hálfleik.

Aroni þótti dómgæslan vera umdeilanleg og m.a. fannst Aroni sem línan sem dómararnir, Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson voru með ekki koma jafnt niður á liðunum. „Það var til dæmis nokkuð um tvöfalda sénsa öðrum megin vallarins. Þannig var þetta bara.“

Haukum tókst að minnka muninn í eitt mark í tvígang undir lok lok leiksins, m.a. 29:28, þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. „Það var slæmt að ná ekki að halda þeim mun,“ sagði Aron.


„Annars var þetta skemmtilegur en erfiður leikur þar sem talsverður hiti var í mönnum, hraðinn mikill. Staðan er bara galopin fyrir síðari leikinn. Við erum þremur mörkum undir og höfum sextíu mínútur til þess að snúa taflinu við. Það verður bara gaman að fara í síðari leikinn. Við erum í úrslitaeinvígi þar sem allt getur gerst með tveimur góðum leikjum. Þetta er bara flott,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -