- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stálverð setur strik í reikninginn í Álaborg

Ekkert verður úr að sætum verði fjölgað í Gigantium íþróttahöllinni í Álaborg en þau hafa verið þétt setin síðan opnað var á ný fyrir áhorfendur á síðasta ári. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Meðal afleiðinga af innrás Rússa í Úkraínu er gríðarleg verðhækkun á stáli á heimsmarkaði. Hefur hækkunin sett stórt strik í reikninginn við byggingarframkvæmdir, svo dæmi sé tekið.


M.a. hefur að sinni verið hætt við fyrirhugaða fjölgun sæta í Gigantium-íþróttahöllinni í Álaborg, heimavelli Aalborg håndbold sem Aron Pálmarsson leikur með. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins.


Á vef Álaborgarliðsins segir að á ís verði settar í bili framkvæmdir við uppsetningu á 1.000 viðbótarsætum fyrir áhorfendur í keppnishöllinni sem samþykkt var á síðasta ári að ráðast yrði í á þessu ári.


Uppselt er á alla leiki liðsins og komast færri að en vilja. Ekki er reiknað með að úr áhuganum dragi þegar helstu stjörnur dansks handknattleiks, Mikkel Hansen og Niklas Landin, ganga til liðs við félagið. Hansen í sumar og Landin að ári liðnu.


Þegar eru 5.000 sæti í keppnishöllinni og stóð til að þau yrðu 6.000 eftir framkvæmdirnar sem átti að vinna í samvinnu félagsins og bæjarfélagsins í Álaborg. Undirbúningsvinnu var lokið og fátt annað sem stóð fyrir dyrum en taka til óspilltra málanna þegar verð á stáli rauk upp úr öllu valdi og fjárhagsáætlun framkvæmdanna hrundi til grunna. Þess utan er örðugra að fá stál en áður var vegna þess að framboð hefur dregist saman. Afhendingartími hefur lengst að sama skapi. Allt ber að sama brunni.


Vonir standa til þess að hægt verði að ráðst í framkvæmdir um leið og um hægist og verð á stáli lækkar og framboð áreiðanlegra en nú er.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -