- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sterkt Valslið vann toppslaginn

Lovísa Thompson sækir að vörn Fram í úrslitum bikarkeppninnar í mars. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Valur vann Fram í stórleik og upphafsleik 2. umferðar Olísdeildar kvenna í handknattleik í Origohöllinni við Hlíðarenda, 28:24, eftir að jafnt var í hálfleik, 11:11. Valsliðið var sterkara í síðari hálfleik og vann sanngjarnan sigur í annars skemmtilegum leik sem markaði upphaf annarrar umferðar deildarinnar.

Valur hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni en Fram einn og tapað einum.


Leikur Vals og Fram var sannkallaður stórleikur enda prýðilega vel leikinn, ekki síst sé tekið mið af því hversu stutt er liðið á keppnistímabilið. Hraðinn var góður og varnir prýðilegar auk þess sem markverðir beggja liða, Saga Sif Gísladóttir hjá Val, og Katrín Ósk Magnúsdóttir í marki Fram, voru vel með á nótunum og sýndu að það er ekki tilviljun að báðar voru valdar í landsliðshópinn sem tilkynntur var í vikunni.


Liðin héldust nánast í hendur allan fyrri hálfleikinn svo að jafnt var á öllum tölum þar til í stöðunni 8:8 að Fram skoraði tvö mörk í röð. Valur svaraði að bragði og Lovísa Thompson sá til þess að jafna metin, 11:11, einni sekúndu áður en leiktíminn var úti í hálfleiknum. Miklvægt mark þar sem Fram-liðið hafði átt þess kost í sókninni á undan að ná tveggja marka forskoti.


Valur náði síðan tökum á leiknum snemma í síðari hálfleik. Sókn og vörn liðsins gekk afar vel meðan veilur voru í leik Fram-liðsins. Valur náði tveggja til þriggja marka forskoti og tókst að auka þann mun, ekki síst með vel út færðum sóknarleik þar sem Lovísa og Þórey Anna fóru á kostum ásamt Ásdísi Ágústsdóttur. Staðan var 23:18, þegar rétt innan við tíu mínútur voru til leiksloka, Val í vil.


Fram-liðið gafst ekki upp og Steinunn Björnsdóttir minnkað muninn í tvö mörk, 24:22, þegar fjórar og hálf mínúta var eftir. Hún fékk svo kjörið tækifæri í næstu sókn til að draga enn meira á forskoti Vals, eða niður í eitt mark, en Saga Sif, markvörður Vals, varði skot Steinunnar af línu og Þórey Anna svaraði um hæl fyrir Val, 25:22, þremur mínútum fyrir leikslok. Skömmu síðar var munurinn á ný orðinn fjögur mörk og Fram-liðið varð að játa sig sigrað.


Lovísa og Þórey Anna skoruðu sjö mörk hvor fyrir Val og voru markahæstar. Saga Sif var með 39 % hlutfallsmarkvörslu.
Ragnheiður Júlísdóttir skoraði sex sinnum fyrir Fram og Steinunn fimm sinnum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -