- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sterkur varnarleikur fleytti Haukum á toppinn

Byrnjólfur Snær Brynjólfsson leikmaður Hauka. Mynd/Haukar topphandbolti
- Auglýsing -

Haukar færðust upp í efsta sæti Olísdeildar á nýjan leik með sigri á Selfossi, 25:20, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld. Haukar voru mun sterkari í leiknum frá upphafi til enda, ekki síst í síðari hálfleik þegar þeir voru með tögl og hagldir. Haukar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 11:9. Þeir hafa nú 15 stig eftir níu leiki og eru stigi á undan FH sem er í öðru sæti og hefur leikið einum leik fleira. Selfoss er í hópi fjögurra liða með 11 stig.


Fyrri hálfleikur var jafn þar sem varnarleikurinn var í aðalhlutverki hjá báðum liðum auk þess sem markvarslan var í hávegum höfð. Björgvin Páll Gústavsson var til að mynda með um 50% hlutfallsmarkvörslu í marki Hauka. Haukar voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 11:9.
Haukar tóku öll völd í leiknum í síðari hálfleik. Þeir náðu fljótlega fimm marka forskoti sem Selfoss-liðinu tók aldrei að brúa.


Sóknarleikur Selfoss var afar slakur allan leiktímann. Kannski vegna þess að varnarleikur Hauka var frábær og batnaði í síðari hálfleik frá þeim fyrri auk þess sem Björgvin Páll hélt uppteknum hætti í markinu. Leikmenn Selfoss gerðu sig einnig seka um talsvert af einföldum tæknilegum mistökum sem eru dýr. Alls tapaði liðið boltanum 14 sinnum.


Sterk vörn Hauka-liðsins færði því nokkur hraðaupphlaup, þó ekki eins mörg og stundum áður. Nokkuð sem Selfoss-liðið fékk ekki þótt vörn þess væri á tíðum góð.

Slitið krossband og högg á nef


Selfoss-liðið varð fyrir blóðtöku í fyrri hálfleik. Snemma meiddist Sveinn Aron Sveinsson á hné og var þjáður. Eftir skoðun hjá Jóni Birgi Guðmundssyni sjúkraþjálfara Selfoss fór Sveinn af leikvelli og þar sem nánar var hugað að honum. Satt að segja virtist þetta ekki líta vel út hjá honum. Grunur leikur á að Sveinn sé með slitið krossband.

Nokkru síðar fékk Nökkvi Dan Elliðason högg á andlitið, sennilega nefið, þegar hann hugðist smeygja sér í gegnum vörn Hauka. Nökkvi Dan kom ekki meira við sögu og fylgdust þeir félagar inn í búningsklefa í hálfleikshléinu og komu ekki meira við sögu.


Mörk Hauka: Orri Freyr Þorkelsson 7/2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 5, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Darri Aronsson 3, Þráinn Orri Jónsson 3, Adam Haukur Baumruk 2, Heimir Óli Heimisson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 13, 39,4%.
Mörk Selfoss: Ragnar Jóhannsson 5, Hergeir Grímsson 5, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Alexander Már Egan 3, Einar Sverrisson 1, Tryggvi Þórisson 1, Atli Ævar Ingólfsson 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 12, 32,4%.

Öll tölfræði leiksins á HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -