- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stjarnan lenti snemma í mótlæti og tapaði í Eyjum

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

ÍBV vann fyrsta vinninginn sem í boði var í rimmunni við Stjörnunnar í upphafsleik úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag, 37:33. ÍBV var yfir frá upphafi til enda og var einnig með fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 21:17.


Næsti leikur liðanna verður í TM-höllinni í Garðabæ á þriðjudagskvöld. Flautað verður til leiks klukkan 18.


Mest náði ÍBV átta marka forskoti, 27:19, í fyrri hluta fyrri hálfleiks.

Tvenn áföll á fyrstu mínútum

Stjarnan varð fyrir tveimur áföllum á fyrstu fimm mínútum leiksins. Pétur Árni Hauksson fór meiddur af leikvelli eftir nærri fjórar mínútur og kom ekkert meira við sögu. Hergeir Grímsson fékk rautt spjald eftir rétt liðlega fimm mínútur fyrir leikbrot. Við bættist að fimm mínútum fyrir leikslok fór Starri Friðriksson meiddur af leikvelli.

Uppfært: Handbolti.is fékk skilaboð um að Starri hafi fengið krampa í hægri kálfa. Hann mætir galvaskur til leiks í TM-höllina á þriðjudaginn.


Þegar voru Brynjar Hólm Grétarsson, Leó Snær Pétursson og Tandri Már Konráðsson úr leik vegna meiðsla Stjörnunni.
Dagur Arnarsson, leikmaður ÍBV, fór meiddur af leikvelli undir lok fyrri hálfleiks og lék ekkert í síðari hálfleik.


Eftir að hafa lent átta mörkum undir snemma í síðari hálfleik reyndu Stjörnumenn allt hvað þeir gátu til að koma til baka. Þeir áttu undir lokin möguleika á að minnka muninn í tvö mörk en Petar Jokanovic markvörður ÍBV varði vítakast Björgvins Þórs Hólmgeirssonar.


Arnór Viðarsson skoraði 34. mark ÍBV í kjölfarið og nær því innsiglaði sigurinn sem var sanngjarn enda var liðið með yfirhöndina frá byrjun.


Starri Friðriksson átti stórleik hjá Stjörnunni. Hann skoraði níu mörk í níu skotum.


Rúnar Kárason var öflugur í liði ÍBV, einnig Arnór Viðarsson auk þess sem Pavel Miskevich varði á tíðum afar vel. Fleiri leikmenn ÍBV lögðu sitt að mörkum.


ÍBV – Stjarnan 37:33 (21:17).
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 8, Kári Kristján Kristjánsson 8/7, Arnór Viðarsson 7, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Janus Dam Djurhuus 3, Theodór Sigurbjörnsson 3, Nökkvi Snær Óðinsson 2, Dagur Arnarsson 1, Ísak Rafnsson 1, Sveinn Jose Rivera 1.
Varin skot: Pavel Miskevich 11/1, 37,9% – Petar Jokanovic 3/1, 16,7%.

Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 9/2, Björgvin Þór Hólmgeirsson 8, Gunnar Steinn Jónsson 5, Hrannar Bragi Eyjólfsson 4, Hjálmtýr Alfreðsson 3, Jóhann Karl Reynisson 2, Hergeir Grímsson 1, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 4, 20% – Arnór Freyr Stefánsson 4/1, 20% – Sigurður Dan Óskarsson 0.

Handbolti.is fylgdist með viðureigninni í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -