- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stolt af liðinu – verðum að draga okkar lærdóm

Íslenska landsliðið fyrir sigurleikinn við Norður Makedóníu í dag. Mynd/EHF
- Auglýsing -

„Við erum stolt af liðinu. Það fer í gegnum mótið með eitt tap, eitt jafntefli og þrjá sigra í leikjunum fimm. Eina tapið var með eins marks mun og jafnteflið var einnig svekkjandi þar sem við vorum nærri sigri. En svona er boltinn,“ sagði Díana Guðjónsdóttir, þjálfari U19 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í dag eftir að íslenska landsliðið hafnaði í fimmta sæti í B-deild Evrópumótsins í handknattleik í Skopje í dag.


Ísland vann Norður Makedóníu í lokaleiknum í morgun í vítakeppni eftir að hafa misst niður sex marka forskot á síðustu tíu mínútum leiksins. Norður Makedóníuliðið jafnaði metin, 28:28, á síðustu sekúndu leiktímans. Íslenska liðið var sterkara á svellinu í vítakeppninni sem fylgdi í kjölfarið, skoraði úr fjórum vítaköstum af fimm meðan leikmenn landsliðs Norður Makedóníu brást bogalistin í tveimur vítaköstum af fjórum og þurftu ekki að taka fimmta kastið þar sem úrslitin lágu fyrir.

„Við tileinkum þennan sigur Gurrý systur [Guðríður Guðjónsdóttir], formanni landsliðsnefndar kvenna hjá HSÍ. Hún er sextug í dag,“ sagði Díana sem er yngst þriggja dætra handboltahjónanna Guðjóns Jónssonar og Sigríðar Sigurðardóttur.

Díana Guðjónsdóttir lengst til hægri fylgist með leiknum í dag frá hliðarlínunni. Mynd/EHF


„Sá lærdómur sem við drögum af þessu móti er að við verðum að læra halda forskoti, halda áfram að leika okkar leik af sjálfstrausti til leiksloka. Fara ekki út úr því konsepti sem lagt er upp með og var að virka. Einnig verðum við að koma í veg fyrir að fá á okkur mark á síðustu sekúndum. Allt þetta kom oftar en einu sinni fyrir okkur í þessu móti,“ sagði Díana.


„Heilt yfir er ég sátt við margt þótt það sé svekkjandi að komast ekki í undanúrslit. Ég hefði viljað fara í úrslitaleikinn. Við vorum með lið til þess. Við unnum síðast leikinn og förum því með sigur í farteskinu heim í nótt,“ sagði Díana Guðjónsdóttir, þjálfari U 19 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -