- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórbrotin frammistaða skaut strákunum áfram

Sigur! Gleði og gaman. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann einn stærsta sigur sinn um langt árabil þegar það lagði Ungverja í úrslitaleik um sæti í milliriðlakeppni Evrópumótsins í MVM Dome í Búdapest í lokaumferð B-riðils mótsins, 31:30.

Íslenska liðið heldur þar með áfram keppni í millriðlum með tvö stig en heimamenn sitja eftir með sárt ennið og minnir fall þeir um margt á vonbrigði okkar Íslendinga á HM 1995 á Íslandi. Staðan var jöfn, 17:17, að loknum fyrri hálfleik.

Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Þar með hefur Ísland í fysta skiptið unnið þrjá fyrstu leiki sína í lokakeppni EM.

Ísland mætir Dönum í fyrstu umferð millriðlakeppninnar sem hefst á fimmtudaginn. Eftir það taka við leikir við Frakka, Króata og Svartfellinga í þessari röð fram í miðja næstu viku.


Lokakaflinn eins og leikurinn í heild var ótrúlega spennandi og litlu mátti muna að Ungverjum tækist að jafna. Hinn þrautareyndi Björgvin Páll Gústavsson varði eitt tólf skota sinna í leiknum á ögurstundu og lína var dæmd á Ungverja þegar hálf mínúta var eftir.

Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Sigurinn var sætur og líta má á hann sem örlitla hefnd fyrir viðureign þjóðanna í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna í London fyrir áratug.
Íslenska landsliðið lék hreint út sagt stórkostlegan sóknarleik þar sem yfirvegun, hraði og útsjónarsemi réði ríkjum. Sannarlega besta frammistaða íslenska liðsins í mótinu og hefur þó sóknarleikurinn verið frábær fram til þessa.

Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Varnarleikurinn var agaður. Reynt var eftir mætti að ýta Ungverjum í óhagstæðar stöður og engin klaufa eða óþarfa brot sáust sem bera skýran vott um aga.

Síðast en ekki síst þá sýndu leikmenn íslenska liðsins af sér æðruleysi og yfirvegun við hrikalega erfiðar aðstæður gegn afar öflugum andstæðingi sem nær undantekningarlítið hefur reynst íslenskum landsliðum óþægur ljár í þúfu. Þegar við bættust um 19.500 áhorfendur sem studdu hressilega við bakið á sínum mönnum þá er afrek og framganga íslensku strákanna enn aðdánunarverðari.


Ljóst að tal um góðan liðsanda sem styrkleika liðsins er ekki úr lausu lofti gripið heldur staðreynd. Það er gaman að sjá íslenska landsliðið leika handknattleik.

Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 9/2, Ómar Ingi Magnússon 8/4, Sigvaldi Björn Guðjónsson 5, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Aron Pálmarsson 2, Elvar Örn Jónsson 1, Elliði Snær Viðarsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, 29,3%. 

Maður leikins: Ómar Ingi Magnússon

Handbolti.is er í MVM Dome og fylgdist með leiknum af mætti í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -