- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórbrotinn leikur landsliðsmarkvarðarins

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins og danska úrvalsdeildarliðsins GOG á Fjóni. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Landsliðsmarkvörðurinn ungi, Viktor Gísli Hallgrímsson, átti stórbrotinn leik með GOG í kvöld þegar liðið vann Pfadi Winterthur frá Sviss í 3. umferð EHF-deildarinnar í handknattleik en leikið var á Fjóni.

Viktor varði 17 skot og var með 42,5% hlutfallsmarkvörslu í leiknum í níu marka sigri GOG, 33:24. Liðið stendur því vel að vígi fyrir síðari leikinn sem fram fer í Sviss eftir viku. Samanlögð úrslit leikjanna skera úr um hvort liðið fer í 16-liða riðlakeppni deildarinnar.

Sem fyrr segir var frammistaða Viktors Gísla hreint frábær. Leikmenn Winterthur stóðu hvað eftir annað ráðþrota fyrir framan markvörðinn sem skellti hreinlega í lás á köflum í leiknum.

Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í keppninni í kvöld. Ýmir Örn Gíslason lék vel fyrir Rhein-Neckar Löwen og skoraði þrjú mörk í sex skotum þegar Löwen vann danska liðið Team Tvis Holstebro, 28:22, á Jótlandi. Ýmir Örn lét einnig til sín taka eins og vant er í vörninni. Alexander Petersson var ekki í leikmannhópi Löwen. Hann glímir við meiðsli. Óðinn Þór Ríkharðsson komst á blað yfir þá sem skoruðu fyrir Holstebro en hann átti tvö skot að markinu.

Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði þrjú mörk í átta skotum en Teitur Örn Einarsson ekkert þegar IFK Kristianstad vann pólska liðið Pulawy, 25:24, í Póllandi. Ólafur og Teitur fengu hvor sína brottvísunina í leiknum.

Elvar Örn Jónsson skoraði ekki þegar Skjern vann franska liðið Montpellier á heimavelli á Jótlandi, 31:30. Hann átti eitt skot á markið og var einu sinni full harðhentur í vörninni og fékk fyrir vikið að hvíla sig einu sinni í tvær mínútur.

Úrslit leikja kvöldsins:

Skjern -Montpellier 31:30
Pulawy – Kristianstad 24:25
GOG – Pfadi Winterthur 33:24
Team Tvis Holstebro – Rhein-Neckar Löwen 22:28
HC Constanta – Sporting 27:27
Gyöngyös – F. Berlin 23:25
Bjerrringbro/Silkeborg – HC CSKA 26:23
Bidasoa Irun – RK Nexe 30:27
Metalurg – Kriens Luzern 26:24
Benidorm – Fivers 34:31
Potaissa Turda – Toulouse 35:35

RK Trimo Trebnje – Balatonfüreti – fyrri leikur felldur niður vegna covid19.

Síðari umferðin fer fram eftir viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -