- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórleikur Arnórs Freys reið baggamuninn

Arnór Freyr Stefánsson átti stórleik í marki Aftureldingar gegn Stjörnunni í kvöld. - Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Arnór Freyr Stefánsson átti stórleik í kvöld þegar Afturelding vann Stjörnuna, 26:23, í Olísdeild karla í handknattleik að Varmá í kvöld. Hann fór á kostum, varði 15 skot sem lagði sig út á tæplega 41% hlutfallsmarkvörslu þegar upp var staðið. Segja má að frammistaða hans hafi skipt sköpum í hnífjöfnum leik þar sem sjaldnast munaði nema einu marki á liðunum á annan hvorn veginn.


Það var ekki fyrr en á síðustu tveimur mínútum leiksins sem munurinn varð svo mikill sem hann var þegar upp var staðið. Minnstu munaði að fjórum mörkum skakkaði á liðunum í lokin en Gunnar Kristinn Þórsson Malmquist brást bogalistin í skoti eftir hraðaupphlaup skömmu fyrir leikslok.


Guðmundur Bragi Ástþórsson, sem á dögunum kom til Aftureldingar sem lánsmaður frá Haukum, lék einnig afar vel og skoraði 8 mörk í 10 skotum.


Stjarnan skoraði ekki mark síðustu sex mínútur leiksins. Dagur Gautason kom Stjörnunni yfir, 23:22, þegar um sex mínútur voru til leiksloka. Eftir það féll Stjörnumönnum allur ketill í eld í sóknarleiknum gegn góðri vörn Aftureldingar og framúrskarandi leik Arnór Freys sem hafði fram að þeim kafla séð til þess að Stjörnumenn næðu aldrei miklu forskoti.

Staðan í Olísdeild karla.

Afturelding er þar með komin upp að hlið FH og Selfoss í annað til fjórða sæti með 11 stig eftir átta leiki. Selfoss á leik til góða. Haukar eru sem fyrr efstir með 12 stig og eiga einnig leik inni á FH og Aftureldingu. Valur er síðan með 10 stig.


Stjarnan er í sjöunda sæti með sjö stig að átta leikjum loknum.


Mörk Aftureldingar:
Guðmundur Bragi Ástþórsson 8/2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Guðmundur Árni Ólafsson 3, Gunnar Kristinn Þórsson Malmquist 3, Blær Hinriksson 2, Þrándur Gíslason Roth 2, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 2, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rochar 1.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 15, 40,5%.
Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 6/3, Björgvin Þór Hólmgeirsson 5, Arnar Máni Rúnarsson 3, Hrannar Bragi Eyjólfsson 3, Pétur Árni Hauksson 2, Dagur Gautason 2, Sverrir Eyjólfsson 1, Tandri Már Konráðsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 7, 29,2% – Sigurður Dan Óskarsson 2, 18.2%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -