Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson átti stórleik með Gummersbach í gærkvöld þegar liðið vann Dessauer, 35:27, í þýsku 2.deildinni í handknattleik á heimavelli. Hákon Daði skoraði 10 mörk, þar af eitt úr vítakasti og var markahæsti leikmaður liðsins ásamt Janko Bozovic.
Hákoni Daða brást bogalistin í þremur skotum. Elliði Snær Viðarsson mætti sprækur til leiks eftir að hafa tekið út leikbann í annarri umferð. Hann skoraði eitt mark.
Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar Gummersbach-liðið sem er efst í deildinni með sex stig eftir þrjá leiki eins og Eintracht Hagen og HC Empor Rostock.

Hüttenberg og Essen eru einnig taplaus en hafa leikið tvisvar sinnum hvort.
Anton Rúnarsson skoraði þrjú mörk úr jafn mörgum skotum þegar TV Emsdetten krækti í eitt stig í heimsókn sinni til Bietigheim í suður Þýskalandi, 31:31. Einnig átti Anton eina stoðsendingu í leiknum. Emsdetten situr í sjötta sæti deildarinnar með þrjú stig að loknum þremur leikjum og fer liðið svo sannarlega betur af stað en á síðustu leiktíð. Þá var Emsdetten í basli frá upphafi til enda og var nærri fallið úr deildinni. Mikil endurnýjun varð á leikmannhópnum í sumar sem hefur skilað sér í að upphafsleikirnir hafa verið betri en í fyrra.