- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórsigur Aftureldingar – KA-mönnum féll allur ketill í eld

Blær Hinriksson og félagar í Aftureldingu unnu stórsigur á KA. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Afturelding vann stórsigur á KA, 33:22, í Olísdeild karla í handknattleik að Varmá í kvöld og hafa þar með tvo vinninga af þremur mögulegum í deildinni. KA-menn reka lestina án stiga og verða alvarlega að hugsa sinn gang, ekki síst eftir frammistöðuna í síðari hálfleik í kvöld sem verður að teljast óviðunandi.

Mosfellingar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14. Ekki voru liðnar nema rúmlega fimm mínútur af síðari hálfleik þegar ljóst var að KA-menn virtust þá þegar ekki líklegir til afreka, komnir sjö mörkum undir, 22:15.

Afturelding tók frumkvæðið í leiknum strax í upphafi og var m.a. yfir 5:2 snemma. KA-menn voru aldrei langt undan. Þeir jöfnuðu metin hvað eftir annað en náðu aldrei yfirhöndinni. Mosfellingar náðu tveggja og þriggja marka forskoti en gekk illa að halda því forskoti enda komu kaflar á milli þar sem meira var um sóknarmistök en mörk. Reyndar var sömu sögu að segja um bæði lið.

Harri Halldórsson kom inn í sóknarleik Aftureldingar eftir um 12 mínútur og skoraði fimm mörk á tíu mínútna kafla.

KA menn jöfnuðu hvað eftir annað fyrstu 20 mínúturnar. Á síðustu tíu mínútunum voru Mosfellingar snarpari. Þeir náðu fjögurra marka forskoti, 14:10 og 15:11, svo KA fékk ekki tækifæri til þess að jafna fyrir hálfleik. Fyrir því sá m.a. Einar Baldvin Baldvinsson markvörður sem leysti Brynjar Vigni Sigurjónsson af á lokakaflanum og varði nokkur mikilvæg skot.
Staðan í hálfleik var 17:14.

Kaflaskil

Aftureldingarmenn byrjuðu síðari hálfleik af miklum myndugleik. Þeir voru komnir sjö mörkum yfir, 22:15, eftir rúmlega fimm mínúutur þegar Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA sá sitt óvænna og kallaði sína menn saman til skrafs og ráðagerða með stuttu leikhléi.

Lítt skánaði leikur KA við leikhléið. Um miðjan síðari hálfleik var forskot Aftureldingar komið upp í 10 mörk, 28:18. Segja má að KA-menn hafi lagt niður vopnin síðustu mínúturnar hafi þeir einhverntímann dregið þau fram í síðari hálfleik. Einar Baldvin markvörður Aftureldingar varði þar á ofan afar vel og stráði salti í sár KA-manna.

Afturelding tefldi hinsvegar fram þremur leikmönnum 18 ára landsliðsins á sama tíma á síðustu 10 mínútum auk þess sem samherjar þeirra á vellinum á sama tíma voru vart orðnir tvítugir heldur.

Mörk Aftureldingar: Ihor Kopyshynskyi 7, Harri Halldórsson 6, Blær Hinriksson 5, Hallur Arason 4, Birgir Steinn Jónsson 4, Þorvaldur Tryggvason 3, Sveinur Olafsson 1, Haukur Guðmundsson 1, Stefán Magni Hjartarson 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 13, Brynjar Vignir Sigurjónsson 3.

Mörk KA: Patrekur Stefánsson 4, Einar Rafn Eiðsson 3, Dagur Árni Heimisson 3, Daði Jónsson 2, Arnór Ísak Haddsson 2, Magnús Dagur Jónatansson 2, Kamil Pedryc 2, Ott Varik 2, Einar Birgir Stefánsson 1, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 9, Nicolai Horntvedt Kristensen 3.

Staðan í Olísdeildum.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -