- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórsigur FH og Hauka, mikilvæg tvö stig Stjörnunnar – Afturelding sterkari á endasprettinum

KA-maðurinn Dagur Árni Heimisson freistar þess að stöðva Jóhannes Berg Andrason, leikmann FH. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -


Hafnarfjarðarliðin, FH og Haukar, unnu stóra sigra í leikjunum sínum í kvöld í 10. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. FH lagði KA-menn með 11 marka mun, 36:25, í Kaplakrika. Haukar gjörsigruðu leikmenn Gróttu í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi, 42:25, í leik þar sem nánast himinn og haf virtist skilja liðin af.

Afturelding er jöfn FH að stigum í tveimur efstu sætum deildarinnar með 15 stig. Mosfellingar unnu Fjölni með sex marka mun, 30:24, eftir að hafa verið sterkari á síðustu 10 mínútum.

Stjarnan sterkari í síðari hálfleik

Í fjórða leik kvöldsins lagði Stjarnan liðsmenn ÍR, 37:33, í Hekluhöllinni í Garðabæ. Eftir jafnan fyrri hálfleik hvar Stjarnan var marki yfir að honum loknum, 18:17, tók liðið yfirhöndina snemma í síðari hálfleik. ÍR-ingum tókst ekki með nokkru móti að jafna leikinn aftur.

Starri Friðriksson er að jafna sig eftir meiðsli sem hafa haldið honum talsvert frá keppni. Hann átti stórleik og skoraði 10 mörk fyrir Stjörnuna. Baldur Fritz Bjarnason hélt uppteknum hætti með ÍR og raðaði inn mörkum. Hann gerði þriðjung markanna í kvöld, 11.

Lengi jafnt í grannaslag

Viðureign Fjölnis og Aftureldingar í Fjölnishöllinni var lengi vel jöfn. Alltént gekk Aftureldingarmönnum illa að hrista baráttuglaða Fjölnismenn af sér í grannaslagnum. Afturelding var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12.

Fjölnir komst yfir þrisvar á fyrri helmingi síðari hálfleiks. Allt stefndi í jafnan leik til enda. Sú varð ekki raunin. Afturelding nýtti sér það að Fjölnismanni var vikið af leikvelli í fjórar mínútur upp úr miðjum hálfleik. Þá náðu Mosfellingar frumkvæði sem þeir létu ekki af hendi. Þeir juku forskot sitt jafnt og þétt síðustu 10 mínúturnar unnu öruggan sigur þegar upp var staðið, 30:24.

Birgir Steinn Jónsson fór mikinn í sóknarleik Aftureldingar og skoraði sjö mörk.

Birgir Már Birgisson að skora eitt af átta mörkum sinum gegn KA í kvöld. Bruno Bernard, markvörður KA, og Logi Gautason koma ekki vörnum við. Ljósmynd/J.L.Long

10 marka munur eftir 45 mínútur

FH-ingar höfðu tögl og hagldir frá upphafi til enda gegn KA í Kaplakrika. Íslandsmeistararnir voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 17:12. KA-liðinu tókst að minnka muninn í fjögur mörk eftir um 10 mínútur í síðari hálfleik og gat komist nær. Það gekk ekki eftir. FH bætti í og náði 10 marka forskoti þegar síðari hálfleikur var hálfnaður, 28:18. Þar með var formsatriði fyrir meistarana að halda sjó og tryggja sér bæði stigin.

Skarphéðinn Ívar Einarsson leikmaður Hauka á auðum sjó í Hertzhöllinni í kvöld. Hann skoraði fimm mörk. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson

Ójafnasti leikurinn

Ójafnasta viðureign kvöldsins var á milli Gróttu og Hauka í Hertzhöllinni. Haukar réðu lögum og lofum frá byrjun til enda án þess að heimamenn fengju rönd við reist. Haukar voru níu mörkum yfir í hálfleik, 22:13. Þeir gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik gegn algjörlega varnarlausum leikmönnum Gróttu.

Ekki létti það leikmönnum Gróttu róðurinn að Aron Rafn Eðvarðsson var í stuði í markinu og varði 16 skot auk þess sem hann skoraði þrisvar sinnum. Aðeins þrír leikmenn Gróttu skoruðu jafnmörg eða fleiri mörk en landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum

FH – KA 36:25 (17:12).
Mörk FH: Birgir Már Birgisson 8, Jóhannes Berg Andrason 5,  Jón Bjarni Ólafsson 5, Ásbjörn Friðriksson 5/3, Garðar Ingi Sindrason 3, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Daníel Freyr Andrésson 2,  Jakob Martin Ásgeirsson 2, Axel Þór Sigurþórsson 1, Ingvar Dagur Gunnarsson 1, Gunnar Kári Bragason 1, Einar Örn Sindrason 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 13, 38,2% – Birkir Fannar Bragason 5.
Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 6, Dagur Árni Heimisson 5,  Ott Varik 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Einar Rafn Eiðsson 2/2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Patrekur Stefánsson 1, Logi Gautason 1,  Kamil Pedryc 1.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 11, 31,4% – Bruno Bernat 2, 15,4%.

Tölfræði HBStatz. 

FH-ingurinn Ágúst Birgisson reynir að stöðva Magnús Dag Jónatansson, leikmann KA. Ljósmynd/J.L.Long

Fjölnir – Afturelding 24:30 (12:14).
Mörk Fjölnis: Haraldur Björn Hjörleifsson 7,  Óðinn Freyr Heiðmarsson 4, Viktor Berg Grétarsson 4, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 3, Björgvin Páll Rúnarsson 3, Elvar Þór Ólafsson 1, Alex Máni Oddnýjarson 1, Victor Máni Matthíasson 1.
Varin skot: Bergur Bjartmarsson 6, 26,1% – Sigurður Ingiberg Ólafsson 2, 20%.
Mörk Aftureldingar: Birgir Steinn Jónsson 10/3,  Ihor Kopyshynskyi 6, Stefán Magni Hjartarson 5, Blær Hinriksson 4, Harri Halldórsson 2, Kristján Ottó Hjálmsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1,  Sveinur Olafsson 1. 
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 8, 34,8% –  Einar Baldvin Baldvinsson 0.

Tölfræði HBStatz

Stjarnan – ÍR 37:33 (18:17).
Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 10, Hans Jörgen Ólafsson 5, Tandri Már Konráðsson 5/1, Sveinn Andri Sveinsson 4, Jóhannes Bjørgvin 4, Jóel Bernburg 3, Pétur Árni Hauksson 3, Egill Magnússon 2, Rytis Kazakevicius 1, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 17/1, 36,2% – Sigurður Dan Óskarsson 0.
Mörk ÍR: Baldur Fritz Bjarnason 11/3, Bernard Kristján Darkoh 5, Sigurvin Jarl Ármannsson 4, Bjarki Steinn Þórisson 4, Egill Skorri Vigfússon 2, Viktor Freyr Viðarsson 2, Andri Freyr Ármannsson 2, Eyþór Ari Waage 1, Bergþór Róbertsson 1, Hrannar Ingi Jóhannsson 1. 
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 8, 28,6% – Arnór Freyr Stefánsson 5, 25% – Alexander Ásgrímsson 1, 25%.

Tölfræði HBStatz

Haukarnir Aron Rafn Eðvarðsson markvörður og Össur Haraldsson. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson

Grótta – Haukar 25:42 (13:22).
Mörk Gróttu:  Jón Ómar Gíslason 5/1, Atli Steinn Arnarson 4, Gunnar Hrafn Pálsson 3, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 2, Ágúst Ingi Óskarsson 2, Elvar Otri Hjálmarsson 2, Hannes Grimm 2, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 2, Alex Kári Þórhallsson 1, Jakob Ingi Stefánsson 1, Sæþór Atlason 1.
Varin skot: Hannes Pétur Hauksson 4, 14,8% – Magnús Gunnar Karlsson 2, 9,5%.
Mörk Hauka: Birkir Snær Steinsson 9, Skarphéðinn Ívar Einarsson 5,  Adam Haukur Baumruk 5, Andri Fannar Elísson 4/2, Þráinn Orri Jónsson 4, Aron Rafn Eðvarðsson 3, Freyr Aronsson 3, Össur Haraldsson 3, Hergeir Grímsson 3, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Jakob Aronsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 16, 39%. 

Tölfræði HBStatz

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum. 

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -