Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði þrjú mörk í fjórum skotum í síðasta leik PAUC-Aix, í frönsku 1. deildinni í kvöld. PAUC vann Créteil mjög örugglega á heimavelli með 11 marka mun, 33:22, og lauk keppni í fjórða sæti með 40 stig í 30 leikjum. Það þýðir að liðið tekur þátt í Evrópukeppni í haust.
Donni hefur þar með lokið sínu fyrsta keppnistímabili í atvinnumennsku með PAUC. Hann tók þátt í 25 af 30 leikjum liðsins á tímabilinu, skoraði 69 mörk og var með 58,4% skotnýtingu samkvæmt tölfræði á vef deildarkeppninnar. Að jafnaði skoraði Donni 2,76 mörk í leik.
PSG er fyrir nokkru orðið meistari í Frakklandi í áttunda sinn. Liðið á enn einum leik eftir ólokið. Óvíst er að hann fari fram þar sem hann skiptir engu máli um röð liðanna í deildinni hver sem úrslitin verða.
Ivry og Tremblay falla í B-deildina. Ivry er eitt sigursælasta lið frönsku 1. deildarinnar og hefur orðið átta sinnum meistari, síðast árið 2007 en þá var Ragnar Óskarsson prímusmótor meistaraliðsins.
Í stað Ivry og Tremblay taka Saran og Nancy, með Elvar Ásgeirsson innan sinna raða, sæti í efstu deild þegar keppni hefst á ný í september.