- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sú tíunda á leið í 100 leikja klúbbinn – vissi ekki af því

Rut Arnfjörð Jónsdóttir verður fyrirliði íslenska landsliðsins. Mynd/EPA

„Ég sá þetta fyrst í fréttinni, hafði bara ekkert leitt hugann að þessu fyrr en þá,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik, spurð út í hvort hún hefði haft augastað á þeim áfanga sem hún nær annað kvöld þegar hún verður tíunda landsliðskonan til þess að leika 100 A-landsleiki.


„Það er fyrst og fremst heiður að komast í þennan flokk með frábærum handboltakonum,“ sagði Rut í samtali við handbolta.is.

100 landsleikjaklúbburinn:
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, 170 - 620.
Arna Sif Pálsdóttir, 150 - 282.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir, 142 - 458.
Dagný Skúladóttir, 119 - 274.
Berglind Íris Hansdóttir, 108 - 0.
Þórey Rósa Stefánsdóttir, 106 - 309.
Karen Knútsdóttir, 103 - 370.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, 102 - 224.
Rakel Dögg Bragadóttir, 102 - 304.
Næst inn:
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, 99 - 209.

Áfanganum nær Rut þegar íslenska landsliðið mætir Svíum í fyrstu umferð 6. riðils undankeppni Evrópumótsins í STIGA Sport Arena í Eskilstuna á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 17 og verður m.a. fylgst með leiknum á handbolta.is. Rut verður fyrirliði íslenska landsliðsins í leiknum.


„Ég á enn langt í land að ná Hröbbu,“ sagði Rut og glotti við tönn og vísaði til Hrafnhildar Óskar Skúladóttur sem leikið hefur flesta landsleiki og er auk þess markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi.


„Eftir að hafa verið lengi í landsliðinu þá segir það ef til vill sína sögu hversu fáa leiki við höfum leikið að nú fyrst sé ég að ná þessum áfanga,” sagði Rut en 14 ár eru liðin síðan hún lék sinn fyrsta A-landsleik, 17 ára gömul. „Reyndar hef ég líka misst af nokkrum leikjum vegna meiðsla og svo þegar ég var ólétt af syni mínum,“ sagði Rut.


Rut segir hlutverk sitt í landsliðinu hafa breyst í gegnum tíðina. Nú þegar hún er komin í hóp eldri leikmanna þá séu hún komin í leiðtogahlutverkið og vilji miðla af reynslu sinni en fáar ef nokkur íslensk handknattleikskona hefur meiri reynslu af alþjóðlegum handknattleik.


Rut sem lék í 12 ár í Danmörku með nokkrum af sterkustu félagsliðum landsins, s.s. Esbjerg, Midtjylland og Tvis Holstebro en með síðastnefnda liðinu varð Rut EHF-bikarmeistari fyrr átta árum. Eins lék Rut í Meistaradeild Evrópu með Esbjerg og Midtjylland.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -