- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Svíar kunna vel við sig í Kaíró

Sænska landsliðið fagnar sigrinum við hliðarlínuna í leikslok. Framundan er úrslitaleikur á HM á sunnudaginn. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Svíar leika til úrslita á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla á sunnudaginn. Þeir lögðu Frakka, 32:26, í undanúrslitaleik í dag. Í kvöld skýrist hvort sænska landsliðið leikur við heimsmeistara Dani eða Evrópumeistara Spánar í úrslitaleiknum í Kaíró á sunnudaginn. Ljóst er að hvernig sem úrslitaleikurinn fer á sunnudaginn þá vinna Svíar sín fyrstu verðlaun á heimsmeistaramóti í 20 ár. Þess má einnig geta til fróðleiks að síðast vann sænskt landslið heimsmeistaratitilinn fyrir 22 árum þegar HM var haldið í Egyptalandi.


Þetta var fyrsti sigur sænsks landsliðs á frönsku landsliði á stórmóti í 21 ár eða frá Ólympíuleikunum í Sydney. Síðan hafa Frakkar unnið 10 leiki í röð gegn Svíum þar til breyting varð á í kvöld.


Svíar verðskulduðu svo sannarlega sigurinn. Þeir voru yfir allan leikinn að undaskildu einu sinni, snemma leiks þegar Frakkar komust yfir, 7:6. Sænska vörnin frábær frá upphafi til enda auk þess sem Andreas Palinka varði vel í markinu. Sóknarleikur Svía var klókur og skotnýtingin framúrskarandi og lengi vel í kringum 90% enda var markvarsla vart merkjanlega hjá frönsku markvörðunum. Svíar voru þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:13.


Vissulega vantaði inn í franska landsliðið að þessu sinni en það er vart afsökun þar sem sænska landsliðið saknar nánast alls hefðbundins byrjunarliðs.
Sænska landsliðið hefur svo sannarlega komið á óvart á mótinu þar sem marga sterka leikmenn vantar í hópinn. Ýmist gáfu þeir ekki kost á sér vegna meiðsla eða vegna þess að þeir höfðu ekki áhuga á að taka þátt í stórmóti í Egyptalandi eins og mál standa vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Til viðbótar þá herjaði veiran á herbúðir sænska landsliðsins fyrir mótið með þeim afleiðingum að æfingar voru færri en ella.

Samstaðan er hinsvegar mikil innan sænska landsliðsins á þessu móti og ljóst að Norðmanninum Glenn Solberg hefur tekist vel upp við að byggja upp góða liðsheild sem leikur skemmtilegan og árangursríkan handknattleik. Solberg tók við landsliði Svía snemma á síðasta ári eftir að Kristján Andrésson hætti eftir EM í janúar 2020.

Mörk Svíþjóðar: Hampus Wanne 11, Daniel Pettersson 6, Jonathan Carlsbogard 4, Felix Claar 3, lbin Lagergren 3, Jim Gottfridsson 3, Lukas Sandell 2.
Mörk Frakklands: Hugo Descat 5, Ndeim Remili 4, Dika Mem 3, Ludovic Fabregas 3, Nicolas Tournat 2, Kentin Mahe 2, Nicolas Claire 2, Luc Abalo 2, Michael Guigou 1, Valentin Porte 1, Jean Jacques Acquevillo 1.

Norðmaðurinn Glenn Solberg, landsliðsþjálfari Svía, hefur náð frábærum árangri á HM. Mynd/EPA

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -