- Auglýsing -
- Auglýsing -

Svöruðu fyrir sig með níu marka sigri – magnaður Viktor Gísli

Viktor Gísli fór hreinlega hamförum í markinu með 60% markvörslu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik svaraði hressilega fyrir sig í síðari leiknum við Tékka í Laugardalshöll í dag með níu marka sigri, 28:19, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12. Þar með endurheimti íslenska landsliðið efsta sæti þriðja riðils í undankeppninni. Efsta sætið getur skipt miklu máli þegar raðað verður í styrkleikaflokka fyrir lokakeppni EM þegar dregið verður í riðla í byrjun maí.


Næstu leikir íslenska landsliðsins, og þeir síðustu í undankeppninni, verða í lok apríl á útivelli gegn Ísrael og á heimavelli við Eistland.

Fyrirliðinn Aron Pálmarsson sækir að vörn Tékka. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Varnarleikurinn var frábær frá upphafi til enda þar sem Ýmir Örn Gíslason var magnaður með lærisveinana Arnar Frey Arnarsson og Elliða Snæ Viðarsson sér til halds og trausts. Til að kóróna veisluna í nýupptekinni Höllinni fór Viktor Gísli Hallgrímsson hreinlega á kostum í markinu. Hann varð 15 skot og var með nærri 58% markvörslu sem er hreint fáheyrð frammistaða. Viktor Gísli kom inn á eftir um stundarfjórðung og gaf strax tóninn, fékk áhorfendur með sér.

Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður átti stórbrotinn leik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Frammistaða Viktors Gísla sló tóninn fyrir framhaldið hjá íslenska liðinu. Það náði þriggja til fjögurra marka forystu í framhaldinu. Staðan var 15:12.


Tékkar lentu á vegg í síðari hálfleik. Þeir skoruðu aðeins sjö mörk og vissu ekki sitt rjúkandi ráð gegn öflugri vörn íslenska liðsins og frábærum markverði, Viktori Gísla. Annars var sóknarleikur Tékka leiðinlegur. Einkenndist af löngum sóknum.

Stiven Tobar Valencia átti stórleik í fyrsta heimaleiknum með landsliðinu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Stiven Tobar Valencia lék sinn fyrsta landsleik á heimavelli. Hann fékk tækifærið allan síðari hálfleikinn. Stiven var magnaður í bakvarðarstöðunni í vörn. Örvhenta skytta Tékka, Stanislav Kasparek, komst hvorki lönd né strönd. Þess utan skoraði Stiven tvö flott mörk, sín fyrstu fyrir landsliðið. Fyrra markið var einstaklega glæsilegt eftir magnaði sendingu frá Viggó Kristjánssyni.

Það var því rík þörf fyrir þolinmæði í varnarleiknum eins og Tékkar léku. Vel undirbúinn leikur leikmanna og þjálfara kom þar að góðum notum ásamt meðfæddri þolinmæði.

Viggó Kristjánsson var markahæstur í dag ásamt Gísla Þorgeiri Kristjánssyni með sex mörk. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Sóknarleikur íslenska liðsins var gjörólíkur þeim sem boðið var upp í fyrri leiknum. Rétt framan af leik virtist sem örlítið sjálfstraust vantaði í menn. En það kom með frábæra áhorfendur sér að baki. Gamla góða Laugardalshöllin var troðfull og alsett bláa lit íslenska landsliðsins.

Rífandi góð stemning var í troðfullri Laugardalshöll. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Íslenska landsliðið svaraði fullkomlega fyrir sig í Laugardalshöll að þessu sinni. Rétt eins og leikmenn sjálfir sögðu eftir fyrri viðureignina að þeir vildu svo innilega gera. Tékkar fengu að finna til tevatnsins. Gæðin í íslenska liðinu skinu í gegn. Það var gaman að vera í Laugardalshöll.


Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 6/1, Gísli Þorgeir Kristjánsson 6, Bjarki Már Elísson 4/1, Óðinn Þór Ríkharðsson 3/1, Aron Pálmarsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Stiven Tobar Valencia 2, Elvar Örn Jónsson 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 15, 57,6% – Björgvin Páll Gústavsson 1, 11%.

Mörk Tékklands: Matej Klima 5, Jakub Hrstka 4/4, Jakub Sterba 2, Stanislav Kasparek 2, Dominik Solak 2, Tomas Piroch 2, Vit Reichl 1, Marek Vanco 1.
Varin skot: Tomas Mrkva 10/1, 26%.

Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -