Teitur Örn Einarsson lék stórt hlutverk hjá IFK Kristianstad í kvöld þegar liðið vann Ademar León frá Spáni með sjö marka mun, 34:27, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik á heimavelli.
Teitur Örn skoraði fimm mörk og átti fjórar stoðsendingar. Myndskeið með einu marka hans er hér fyrir neðan.
Ólafur Andrés Guðmundsson hélt sig til hlés í leiknum eftir að hafa fengið högg á lærið á dögunum.
IFK Kristianstad stendur vel að vígi eftir sigurinn en síðari viðureign liðanna fer fram í Kristianstad annað kvöld á sama tíma og aðrir leikir í síðari umferð 16-liða úrslitanna fara fram. Kristianstad og Ademar León áttu að mætast fyrir viku en vegna smita kórónuveiru var viðureigninni frestað um viku og ákveðið að leikið yrði tvo daga í röð í Svíþjóð.