- Auglýsing -
- Auglýsing -

Það er stutt fyrir mig að fara á æfingar

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik með Val fyrir nokkrum árum. Mynd/Valur
- Auglýsing -

„Ég mæti á eina og eina æfingu til þess að fá útrás og svo ég sé ekki með læti heima,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fyrrverandi landsliðskona glöð í bragði í samtali við handbolta.is í gær eftir að hún lék með Val gegn ÍBV í Meistarakeppni HSÍ. Leik sem Valur vann örugglega, 30:23.


Anna Úrsúla lét til sína taka, jafnt í vörn sem sókn, gaf ekkert eftir enda mikil keppnismanneskja. Hún hefur nokkrum sinnum dregið sig í hlé frá boltanum og m.a. eignast þrjú börn. Handboltinn hefur hvað eftir annað kallað hana út á völlinn á nýjan leik.

Mjög óheppnar

„Því miður hafa stelpurnar verið mjög óheppnar með meiðsli, ekki síst Mariam [Eradze]. Ég var þar af leiðandi beðin um að taka þátt í þessum leik. Ég gat ekki neitað. Ef ég get hjálpað eitthvað þá er það bara gott,“ sagði Anna Úrsúla ennfremur.
Anna Úrsúla segir ekki útilokað að hún taki þátt í fleiri leikjum með Val á næstunni, ekki síst á meðan nær allir leikmenn í þristastöðunni í vörninni eru frá keppni vegna meiðsla.

Býr í næsta húsi

Hildigunnur Einarsdóttir stendur ein eftir sem stendur. „Ef það eru vandræði hjá Valsliðinu þá er hringt í mig og ég segi yfirleitt já við öllu. Ég bý í næsta húsi. Það er stutt á æfingar,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir handknattleikskona hjá Val sem sannarlega hefur engu gleymt á handknattleiksvellinum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -