- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Það hefur gengið vel hjá okkur“

Arnar Freyr Arnarsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það hefur gengið vel hjá okkur til þessa,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður MT Melsungen í þýsku 1. deildinni en liðið hefur svo sannarlega blandað sér hressilega í toppbaráttu þýsku 1. deildinni fram til þessa á leiktíðinni. Melsungen er í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Füchse Berlin sem trónir á toppnum að loknum 11 umferðum.


Síðustu ár hefur Melsungen verið aðeins á eftir allra bestu liðunum í Þýskalandi. Arnar sagði það helst hafa breyst frá síðustu árum er að leikmenn eru meira farnir að leika „sína stöðu“ í stað þess að rótera á milli. Auk þess þá hafi þjálfarinn náð að setja meira mark á liðið eftir því sem tíma hans við stjórnvölin vindur fram.

Hefur mótað sitt lið

„Til dæmis þá leikur Elvar [Örn Jónsson] nú í skyttustöðunni vinstra megin eftir að hafa verið á mest á miðjunni á síðasta ári. Svo má einnig segja að þjálfarinn [Roberto García Parrondo] hafi nú loksins mótað sitt lið með þeim leikmönnum sem hann vill hafa. Hann tók við fyrir þremur árum og hefur núna náð að móta lið með þeim leikmönnum sem hann hefur valið og fengið til félagsins,“ sagði Arnar Freyr sem er hér á landi þessa daga til þess að taka þátt í leikjum með íslenska landsliðinu gegn Færeyingum sem fram fara í Laugardalshöll á föstudaginn og á laugardaginn.

Aukinn agi í leiknum

„Sóknarleikurinn er líka agaðri en áður og meira jafnvægi á vörninni. Það skiptir einnig miklu máli,“ sagði Arnar Freyr sem gekk til liðs við MT Melsungen sumarið 2020. Hann er með samning út þessa leiktíð.

Svipað hlutverk

Arnar Freyr segir að skiljanlega sé meiri stemning í kringum liðið þegar vel gengur og einnig hjálpi það til að liðið hafi unnið marga sannfærandi sigra, tilviljun hefur ekki ráðið för.

Hlutverk Arnars Freys hjá Melsungen er svipað og á síðasta ári. Þjálfarinn skipti leiktímanum talsvert niður á milli manna.

Vonaðist eftir meiru

„Stundum leik ég meira í sókn og minna í vörn og síðan öfugt í næsta leik. Hlutverk mitt er aðeins minna en ég vonaðist eftir,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður MT Melsungen í Þýskalandi í samtali við handbolta.is.


Arnar Freyr verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í tveimur vináttuleikjum við Færeyinga í Laugardalshöll á föstudag og laugardag. Miðasala á leikina gengur afar vel og fer fram á miðsöluvef Tix.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -