„Þetta var þægilegur dagur á skrifstofunni,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar eftir 19 marka sigur á Stjörnunni, 40:21, í Olísdeild karla í handknattleik að Varmá í kvöld.
„Við mættum klárir í slaginn og lékum af fullum krafti í 60 mínútur. Það er ekki oft sem maður getur átt svona þægilegan leik. Fyrir vikið gátum við dreift álaginu vel á milli manna, leyft öllum að spila,“ sagði Gunnar sem var ánægður með leik sinna manna eftir vonbrigðin að tapa undanúrslitaleiknum í Poweradebikarnum fyrir Fram í síðustu viku.
„Við vorum fúlir eftir síðustu viku. Eina leiðin til að svara fyrir það var að koma af fullum krafti,“ sagði Gunnar sem á næst leik gegn FH í Kaplakrika á sunnudaginn. Eftir leiki 19. umferðar er tveggja stiga munur á FH og Aftureldingu, FH i vil.
„Við einbeitum okkur að næsta leik sem verður við FH í Kaplakrika. Það er alltaf gaman að koma þangað og taka þátt í leik liðanna sem léku til úrslita um Íslandsmeistatitilinn í fyrra. Okkur bíður ærið verkefni á sunnudaginn,“ segir Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar að Varmá í kvöld.
Lengra viðtal við Gunnar er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Stjörnumenn voru kjöldregnir að Varmá