Sigvaldi Björn Guðjónsson og samherjar í norska meistaraliðinu Kolstad máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir Aalborg Håndbold, 27:25, í Álaborg í kvöld í 6. umferð Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Staðan í hálfleik var 17:12, en varnarleikur og barátta réði ríkjum hjá tveimur af sterkustu handknattleiksliðum Norðurlandanna.
Markverðir beggja liða voru í stórum hlutverkum. Niklas Landin varði 16 skot í marki Aalborg, 39%. Torbjørn Bergerud stóð kollega sínum hinum megin vallarins lítt að baki. Bergrud varði 15 skot, 36%.
Sigvaldi Björn skoraði eitt mark í þremur skotum og hefur oft verið aðsópsmeiri. Sander Sagosen mætti á sinn gamla heimavöll og skoraði 10 mörk í 12 skotum fyrir Kolstad. Adrian Aalberg var næstur með fimm mörk.
Mads Hangaard skoraði sjö fyrir Aalborg-liðið og Mikkel Hansen var næstur með fimm mörk og fimm skot geiguðu hjá kappanum í leiknum.
Aalborg er þar með komið með sjö stig eftir sex leiki í A-riðli. Kolstad er einu stigi á eftir í fjórða sæti.
Tveir leikir í Meistaradeildinni hefjast síðar í kvöld. Haukur Þrastarson og félagar í Kielce sækja Eurofarm Pelister heim til Norður Makedóníu og Montpellier fær Evrópumeistara SC Magdeburg í heimsókn.