„Mig langaði fyrst og síðast til að takast á við nýjar áskoranir sem gera mig vonandi að betri leikmanni,“ sagði Hergeir Grímsson handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is. Greint var frá því í gærkvöld að Hergeir hafi ákveðið að yfirgefa uppeldisfélag sitt, Selfoss, og ganga til liðs við Stjörnuna. Það eru ævinlega mikil tíðindi þegar rótgrónir leikmenn söðla um, eins og Hergeir gerir nú.
Vildi aftur vinna með Patreki
„Mér líst vel á Stjörnuna og það sem Patrekur hefur fram að færa. Ég þekki hann mjög vel eftir að hann þjálfaði okkur hjá Selfossi í tvö ár. Mér fannst gott að vinna með Patreki á sínum tíma. Ég hlakka til að taka upp þráðinn,“ sagði Hergeir ennfremur en undir stjórn Patreks Jóhannessonar varð Selfoss Íslandsmeistari fyrir þremur árum.
Ekki auðveld ákvörðun
„Það var ekki auðveld ákvörðun að kveðja Selfossliðið. Að vel athuguðu máli tel ég að hún sé sú rétta fyrir mig. Með því að komast í nýtt umhverfi er ég viss um að eiga meiri möguleika að verða ennþá betri leikmaður, skipta um lið og skora á sjálfan mig. Þess vegna tók ég stökkið,“ sagði Hergeir sem er á 25. aldursrári.
Hefur verið fyrirliði
Hergeir lék sína fyrstu meistaraflokksleiki 16 ára gamall. Hin síðari ár hefur hann verið kjölfesta Selfossliðsins og hlotið margar viðurkenningar, jafnt hjá félaginu og sveitarfélaginu Árborg. Hergeir hefur einnig verið fyrirliði Selfoss á undanförnum árum, leiðtogi utan vallar jafnt sem innan.
Hergeir velti fyrir sér fleiri kostum en þann að fara í Stjörnuna. Stjarnan var fyrst og fremst og þar skipti vera Patreks þjálfara miklu máli.
„Ég er fyrst og fremst spenntur fyrir að reyna mig annarstaðar auk þess að vera viss um að framundan eru skemmtilegir tímar. Ég er fullur tilhlökkunar. Þetta verður skemmtilegt,“ sagði Hergeir Grímsson nýbakaður liðsmaður Stjörnunnar í Garðabæ.