- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þessum titli fylgir meiri gæsahúð af því að þetta er FH

Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Það var bara stórkostlegt að þetta gekk upp. Ég var stórorður þegar ég kom heim og skrifaði undir hjá FH um að vinna Íslandsmeistaratitilinn og vissulega þurfti allt að ganga upp til þess að það gerðist. Allt gekk þetta upp sem betur fer en það kostaði mikla vinnu. Þar af leiðandi er mér bara fyrst og fremst létt eins og alltaf þegar maður hefur náð stórum áfanga á ferlinum,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði FH og mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar í samtali við handbolta.is að Varmá í kvöld eftir að Aron varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn á sínum stórkostlega handboltaferli.

Eins og Aron sagði þá sagði hann þegar tilkynnt var óvænt skömmu fyrir jólin 2022 að hann ætlaði að flytja heim nokkrum mánuðum síðar og vinna Íslandsmeistaratitilinn með FH, uppeldisfélagi sínu eftir 14 ára feril í atvinnumennsku.

Aron Pálmarsson var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Ljósmynd/J.L.Long

Aðeins meyrari

„Ég er aðeins meyrari núna en stundum áður þegar ég hef unnið titla með félagsliðum mínum í gegnum tíðina. Þessum titli fylgir meiri gæsahúð af því að þetta er FH. Mér finnst þetta hreint æðislegt. Ég er hrikalega hamingjusamur,“ sagði Aron sem valinn var mikilvægagsti leikmaður úrslitakeppni Olísdeildar karla.

Ekkert sjálfgefið

„Að mínum mati vorum við og erum með besta liðið. Sigurinn er því sanngjarn. Að sama skapi hefðu það verið mikil vonbrigði hefði okkur ekki tekist að verða meistarar. Það var hinsvegar ekkert sjálfgefið eða eitthvað sem við gátum gengið að vísu þótt liðið væri frábært,“ sagði Aron sem var að rjúka af stað úr Mosfellsbænum suður í Hafnarfjörð þar sem hans og liðsfélaga beið móttaka í Kaplakrika.

Gott sumarfrí

„Næst á dagskrá er að hitta stuðningsmennina og fara síðan í gott sumarfrí,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði FH og nýkrýndur Íslandsmeistari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -