- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þetta er risastór áfangi“

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Barein. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Þetta er stórkostlegt,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein, í samtali við handbolta.is í morgun eftir að ljóst var að Bareinar leika í átta liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í karlaflokki. Um er að ræða stórsigur fyrir Bareina sem eru nú með í fyrsta sinn.


Barein, Japan og Portúgal enduðu með tvö stig hvert í fjórða, fimmta og sjötta sæti B-riðils. Barein stóð best að vígi á innbyrðis úrslitum liðanna þriggja en hefði Japan unnið Portúgal með þriggja marka mun í stað eins þá hefði það komið í hlut Dags Sigurðssonar og leikmanna Japans að fara áfram en Bareinar og Portúgalar setið eftir.

Allt getur gerst í íþróttum

„Við erum komnir áfram sem er frábært. Okkur bíður mjög erfiður leikur við Frakka en við munum gera allt til þess að stríða þeim eftir bestu getu. Það getur allt gerst í íþróttum.“ Átta liða úrslit verða leikin á þriðjudaginn.


Það var stór áfangi fyrir Barein að vinna sinn fyrsta leik á Ólýmpíuleikunum. Að komast í átta liða úrslit er enn stærra. „Þetta er risastór áfangi,“ sagði Aron og hló þegar hann var spurður hvort þetta verði ekki til að honum verði boðin æviráðning í starf landsliðsþjálfara Barein.

Reiknar ekki með æviráðningu

„Ég segi það nú ekki. Maður er á þannig svæði að sennilega er best að taka einn dag fyrir í einu. Sannarlega eru menn mjög ánægðir með árangurinn. Strax eftir sigurinn á Japan í fyrradag vildu menn ræða við mig um framtíðaráform og gera áætlanir til skemmri og lengri tíma.

Skammtímamarkmiðið var til eins árs og langtímamarkmiðið átti að vera til tveggja ára. Í Evrópu er langtímamarkmiðið til lengri tíma en tveggja ára. Ég hef verið að fá þá til að hugsa til lengri tíma. Eitt og annað sem talað var um fyrir þremur árum hefur ekki enn verið hrint í framkvæmd. Við sjáum til hvað gerist eftir leikana. Vonandi setja yfirvöld aðeins meiri pening í þetta en nú er gert,“ sagði Aron.

Vel útfært hjá Degi

„Við vissum það fyrir leikinn í dag að Japan ætti góða möguleika á að vinna Portúgal. Málið snerist bara um markatöluna. Þeir léku virkilega góðan leik gegn Portúgal. Leikurinn var afar vel útfærður hjá Degi. En þegar upp var staðið þá féll þetta með okkur,“ sagði Aron og bætti við að erfitt hafi verið að fá menn til að einbeita sér að lokaleiknum gegn Egyptum í nótt þar sem þeir vissu að þeir væri komnir áfram.

Spennufall

„Spennufallið var mikið í hópnum og í kjölfarið var leikurinn okkur erfiður. Einbeitingin var rokin út í veður og vind. Um margt minnti frammistaða okkur á leiki í deildarkeppninni í Barein með þeim göllum sem þar eru,“ sagði Aron um tíu marka tapið fyrir Egyptum, 30:20, í lokaumferðinni.

Sigur fyrir Asíu

Aron undirstrikar að niðurstaðan í riðlinum sé mikill sigur fyrir handknattleik í Asíu þótt aðeins annað liðið hafi komist áfram. „Dagur hefur unnið frábært starf með japanska landsliðið á undanförnum árum. Þeir hafa bætt sig mikið. Við höfum leikið vel á leikunum, erum komnir áfram, sláum út Japani og vorum í jöfnum leikjum bæði við Svía og Portúgal þar sem við vorum hársbreidd frá að fara með þrjú eða fjögur stig frá þeim viðureignum. Þetta er eitthvað sem menn bjuggust ekki við fyrirfram,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein í samtali við handbolta.is í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -