- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þetta er stórt fyrir Skara – hugur í Aldísi Ástu – úrslitakeppni á næsta leiti

Aldís Ásta Heimisdóttir hefur gert það gott með Skara HF undanfarin þrjú ár. Hún varð deildarmeistari í gær með liðinu. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Það er gaman að ná þessum árangri þótt sannarlega skipti úrslitakeppnin meira máli en deildarkeppnin,“ sagði handknattleikskonan Aldís Ásta Heimisdóttir þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar í dag. Aldís Ásta varð í gær deildarmeistari í handknattleik kvenna í Svíþjóð í gærkvöld með liði sínu Skara HF. Sigur liðsins í deildarkeppninni er óvæntur enda fyrsti titillinn sem liðið vinnur í sögunni. Skara HF skaut Sävehöf, Skara og H65 Höör ref fyrir rass en síðastnefndu liðin þrjú hafa verið þau sterkustu í sænskum kvennahandbolta um árabil.


Skara HF vann 13 af síðustu 14 leikjum sínum í deildinni og komst upp fyrir Sävehof í lokaumferðinni með sigri á Skuru, 28:22, á heimavelli á sama tíma og Sävehof gerði óvænt jafntefli við Kungälvs, 23:23.

Stórt fyrir Skara

„Þetta er stórt fyrir Skara sem er ekki fjölmennur bær. Áhuginn fyrir handboltanum er eðlilega mikill um þessar mundir. Það er alltaf fullt hús á leikjum og mikil stemning.“

Íslendingaslagur

Átta liða úrslit hefjast á mánudaginn. Skara HF mætir Kristianstad HK sem varð í 8. sæti. Með Kristianstad leika Berta Rut Harðardóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir. Sú síðarnefnda fór frá Skara síðasta sumar eftir tveggja ára veru. Vinna þarf þrjá leiki í átta liða úrslitum. Komi til fimm leikja verður sú síðasta sunnudaginn 6. apríl áður en hlé verður gert vegna landsliðsviku.

Aldís Ásta hitar upp fyrir landsleik á Ásvöllum gegn Svþjóð 29. febrúar á síðasta ári. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Til í hvað sem er

„Okkur líst vel á að mæta Kristianstad og það verður gaman að mæta Bertu og Jóhönnu. Annars vorum við til í að mæta hvaða liði sem er,“ sagði Aldís Ásta sem hefur verið ánægð með eigin spilamennsku á leiktíðinni, ekki síst eftir áramótin. Aldís Ásta var fjarri góðu gamni í nærri mánuð í febrúar og fram í mars vegna álagsmeiðsla. Hún segist vera í sókn enda tekið þátt í síðustu þremur leikjum án vandræða.

Þjálfaraskiptin breyttu öllu

„Þjálfaraskiptin í desember breytti öllu. Nýi þjálfarinn kom með mikla breytingar og segja má að hann hafi gert mjög góða hluti með okkur. Niðurstaðan er sú að við höfum unnið 13 af 14 leikjum eftir að hann tók við,“ sagði Aldís Ásta um sigurgönguna sem verið hefur á Skara HF á nýju ári. Liðið hefur verið í östöðvandi og farið jafn og þétt upp úr því að vera rétt fyrir ofan deild og í efsta sætið.

„Þjálfarinn sem tók við er mjög taktískur og leggur áherslu á nýta styrkleika okkar sem erum í liðinu.“

Talsverðar breytingar

Skara komst í undanúrslit um sænska meistaratitilinn á síðustu leiktíð eftir að hafa hafnað í sjötta sæti. Að sögn Aldísar Ástu voru talsverðar breytingar á leikmannahópnum fyrir leiktíðina. „Það tók okkur svolítinn tíma að stilla saman strengina en það tókst eftir áramótin, svo um munaði,“ sagði Aldís Ásta.

Aldís Ásta Heimisdóttir í leik með KA/Þór vorið 2022. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Óvíst hvað tekur við

Aldís Ásta, sem er leikstjórnandi og var í Íslands- og bikarmeistaraliði KA/Þórs 2021, er á sínu þriðja keppnistímabili með Skara. Hún segist ekki vera alveg viss, eða vill ekki segja, hvort hún heldur áfram með liði félagsins eða söðlar um.

„Það kemur bráðlega í ljós hvað ég ætla að gera,“ segir Aldís Ásta sem er í fjarnámi í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri og lýkur námi í vor.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -