- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þetta verður smá ævintýri“

Lovísa Thompson leikur ekki fleiri leiki með Ringkøbing. Mynd/Ringkøbing Håndbold
- Auglýsing -

„Ég hef haft það á bak við eyrað síðustu tvö ár að komst út og reyna fyrir mér þegar tækifæri gæfist. Það hefur heldur ekkert verið auðvelt fyrir mig að fara út, meðal annars vegna uppeldisgjalda. Nú opnaðist tækifæri og segja má að það hittist líka vel á þar sem ég að ljúka námi í sálfræði í HÍ í júní og upplagt að breyta til og takast á við nýjar áskoranir þegar ákveðinn áfangi er að baki,“ sagði Lovísa Thompson landsliðskona í handknattleik og fráfarandi leikmaður Vals þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar í dag. Lovísa hefur skrifað undir samning við danska úrvalsdeildarliðið Ringkøbing Håndbold eins og greint var frá í morgun. Um leið gerir danska félagið lánasamning við Val vegna Lovísu.

Getur orðið á brattann að sækja

Lovísa segist vera spennt fyrir nýrri áskorun á þessum tímapunkti á ferlinum. Hún segist gera sér vel grein fyrir að það geti orðið á brattann að sækja hjá Ringkøbing Håndbold sem hafi rétt haldið sæti sínu í úrvalsdeildinni í vor. Á móti komi að henni lítist vel á það sem þjálfari liðsins, Jesper Hol­mr­is, hefur fram að færa og það hlutverk sem hann ætlar henni

Elín Jóna hefur verið hjálpleg

„Ég hef rætt vel við forsvarsmenn liðsins og þjálfarann og einnig Elínu Jónu [Þorsteinsdóttur] markmann sem er í liðinu. Hún hefur hvatt mig áfram við að stíga skrefið og verið mér stoð og stytta að mörgu leyti.

Fær skýrt hlutverk

Til viðbótar hafa samskipti mín við þjálfarann verið mjög góð. Hann sýndi mjög mikinn áhuga á að fá mig til félagsins. Meðal annars hefur hann skýrt lagt niður fyrir mér hvert hlutverk mitt verður. Það er mjög traustvekjand og uppörvandi um leið,“ segir Lovísa sem flytur til Jótlands í byrjun júlí en fyrstu æfingar verða um miðjan mánuðinn.

Lovísa fagnar marki í undanúrslitaleik bikarkeppninnar í mars. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Ekki í aðalhlutverki

„Ég tel að ég sé í þeim sporum á ferlinum að ég verði að reyna fyrir mér í erfiðari deild, takast á við nýjar áskoranir á stað þar sem ég þarf að leggja mig virkilega mikið fram á æfingum og í leikjum og án þess að vera í aðalhlutverki.“

Lovísa er 22 ára gömul. Hún lék upp yngri flokka Gróttu og var komin í meistaraflokkslið félagsins 15 ára gömul. Lovísa varð Íslandsmeistari með Gróttu 2015 og 2016 og bikarmeistari 2015. Hún færði sig yfir til Vals sumarið 2018 og varð Íslands, og bikarmeistari með liðinu árið eftir. Auk þess var hún í silfurliði Vals á Íslandsmótinu í ár og í fyrra auk þess að vera í sigurliði Vals í bikarkeppninni í mars sl. Tvö ár í röð var Lovísa valin efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna, 2015 og 2016. Árið 2019 var hún útnefnd besti sóknarmaður Olísdeildar.
Lovísa lék sinn fyrsta landsleik í byrjun júní 2016 og hefur alls leikið 29 A-landsleiki og skoraði í þeim 69 mörk. Síðast lék Lovísa með landsliðinu gegn Svíum og Serbum í undankeppni Evrópumótsins 20. og 23. apríl. Þá á hún fjölda leikja með yngri landsliðunum.

Fer í mjög sterka deild

„Ég er að fara í lið sem var í botnbaráttu en staða þess er þó þannig að það er í hörkukeppni við nokkur önnur lið sem eru á svipuðu róli. Um leið og maður er kominn í þetta umhverfi þá verður maður um leið sýnilegri gagnvart sterkustu liðunum ef maður stendur sig vel. Ég tel mig vera vel undir það búna að stíga skrefið út og fara í mjög sterka deild,“ segir Lovísa.


Þess má geta að tvö af liðunum sem voru í átta lið úrslitum Meistaradeildar voru úr dönsku úrvalsdeildinni og tvö af fjórum liðum sem unnu sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar leika einnig í dönsku úrvalsdeildinni.

Lovísa Thompson í landsleik við Litáa í forkeppni HM á síðasta ári. Mynd/EPA

Verð aftur efnileg og vera ég sjálf

„Ég er viss um að það sé rétt hjá mér að komast frekar að hjá liði þar sem ég fæ að spila og verða aftur efnileg, vera ég sjálf og þurfa ekki að bera mikla ábyrgð, leika undir minni pressu en hefur myndast hér heima með tímanum,“ segir Lovísa sem tók sér frí frá handboltanum í nokkrar vikur í vetur þegar henni þótt álagið vera orðið of mikið.

Þroskandi að fara út fyrir rammann

„Þetta verður smá ævintýri. Ef það gengur ekki upp þá verður það ekkert mál. Lífið heldur áfram. Til þess að þroskast jafnt sem leikmaður og persóna er gott að fara út fyrir þægindarammann sem maður hefur komið sér í hér heima á Íslandi.


Ef maður ætlar að bæta sig sem leikmaður þá er einn liðurinn á þeirri leið að skipta um umverfi og takast á við nýjar áskoranir. Þetta er kannski klisjukennt hjá mér en er engu að síður staðreynd,“ segir Lovísa.

Flókið að vera handboltapar

Óvíst er á þessari stundu hvort unnusta Lovísu, handknattleiksmaðurinn Þorgils Jón Svölu Baldursson leikmaður Íslandsmeistara Vals fari með henni út.

„Það er stóra spurningin núna. Vonandi kemur hann út með mér en sem stendur er það óvíst. Það getur stundum verið flókið að vera handboltapar en við leysum saman úr þeirri stöðu sem kemur upp,“ sagði Lovísa Thompson handknattleikskona sem leitar nýrra ævintýra handknattleiksvöllum Danmerkur á næsta keppnistímabili.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -