- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þjóðverjar unnu eftir framlengingu

Johannes Golla og félagar í þýska landsliðinu leika um 5. sætið á HM á sunnudaginn. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þýska landsliðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, leikur um 5. sætið á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla á sunnudaginn. Þjóðverjar lögðu Egypta með eins marks mun í framlengdum spennuleik, 35:34, í Stokkhólmi fyrir stundu. Julian Köster, leikmaður Gummersbach, skoraði markið sem reyndist skera úr um úrslitin þegar nærri hálf önnur mínúta var eftir af framlengingunni.


Þýskaland leikur við Noreg eða Ungverjaland um 5. sætið á HM en lið tveggja síðastnefndu þjóðanna mætast í hinum leiknum í krossspilinu klukkan 17.


Þjóðverjar voru sterkari framan af leiknum við Egypta í dag. Þeir náðu fjögurra marka forskoti um miðjan fyrri hálfleik, 11:7, og voru með þriggja marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 17:14. Framan af síðari hálfleik stefndi margt í sigur þýska liðsins sem var m.a. með sjö marka forskot, 28:21, eftir 12 mínútur.

Egyptar sneru þá vörn í sókn og skoruðu fimm mörk í röð. Þeir gerðu hvað þeir gátu til þess að jafna metin og það tókst þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma, 30:30. Ekkert var skorað það sem eftir var og varð þar með að grípa til framlengingar.

Egyptar komust einu sinni yfir í framlengingunni, 33:32, en máttu játa sig sigraða að leikslokum, 35:34, eftir mikinn baráttuleik.


Mörk Þýskalands: Juri Knorr 7/2, Johannes Golla 6, Julian Köster 6, Kai Häfneer 5, Lukas Mertnes 4, Jannik Kohlbacher 3, Christoph Steinert 2, Lukas Stutzke 1, Lukas Zerbe 1.
Varin skot: Andreas Wolff 20, 38%.
Mörk Egyptalands: Yehia Elderaa 7, Ali Mohamed 7/4, Omar Elwakil 5, Mohab Abdelhak 4, Mohamed Shebib 4, Ahmed Mohamed 3, Mohammad Sanad 2, Akram Mesilhy 1, Ibrahim Elmasry 1.
Varin skot: Abdelrahman 4, 25% – Karim Hendawy 4, 15%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -