- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þórey Rósa bætir við þremur árum

Þórey Rósa Stefánsdóttir leikmaður Fram. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Landsliðskonan Þórey Rósa Stefánsdóttir hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við handknattleiksdeild Fram. Hún hefur verið ein burðarása í sterku liði Fram síðustu árin eftir að hafa skilað sér heim aftur fyrir fimm árum að lokinni átta ára veru með félagsliðum í Hollandi, Þýskalandi, Danmörku og í Noregi hvar hún lék síðast með stórliði Vipers Kristiansand frá 2013 til 2017.


Þórey Rósa skoraði 85 mörk í 20 leikjum í Olísdeildinni með deildarmeisturum Fram. Hún verður klár í slaginn þegar Fram hefur keppni í úrslitakeppninni undir lok vikunnar.


Þórey Rósa hefur verið ein fremsta hægri hornakona í íslenskum handknattleik um árabil. Ferill hennar með landsliðinu spannar ríflegan áratug. Hún var leikreyndasti leikmaður landsliðsins í leikjunum við Svía og Serba á dögunum á endaspretti undankeppni Evrópumótsins. Alls eru landsleikir Þóreyjar Rósu 113 og mörkin 330 fyrir landsliðið. Það er því ekki síður jákvætt fyrir landsliðið en Fram að Þórey Rósa ætli að taka slaginn áfram á fullri ferð í handboltanum.


Þórey Rósa er ein fárra íslenskra handknattleikskvenna sem hefur verið í sigurliði í Evrópukeppni félagsliða en hún var í stóru hlutverki hjá danska liðinu Team Tvis Holstebro þegar það vann EHF-bikarinn vorið 2013.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -