- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þórir: „Er mjög ánægður og stoltur“

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins, fagnar sigri á EM 2020. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Ég er mjög ánægður og stoltur af liðinu og öllum sem starfa með okkur. Þetta hefur verið frábær ferð og gott mót við sérstakar aðstæður,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari nýbakaðra Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í kvöld eftir að norska landsliðið varð Evrópumeistari með sigri á franska landsliðinu, 22:20, í úrslitaleik í Herning í Danmörku.

„Við þróuðum okkar leik jafnt og þétt allt mótið. Stemningin og ákafinn innan hópsins hefur verið frábær frá fyrsta degi til dagsins í dag. Allir hafa verið einbeittir og staðráðnir í að skila sínu hlutverki fullkomlega til þess að standa að lokum á efsta þrepi verðlaunapallsins,“ sagði Þórir en þetta var í fjórða sinn sem Noregur verður Evrópumeistari með hann sem aðalþjálfara en í áttunda skipti alls sem Noregur vinnur Evrópumeistaratitilinn.

„Við erum í þessu til þess að ná sem lengst“

Sterkt að vinna þrátt fyrir allt

„Það er mjög sterkt að vinna Frakka í leik þar sem við gerum jafn mikið af mistökum og við gerðum að þessu sinni til viðbótar við að okkur tókst aldrei almennilega að keyra á þá í hraðaupphlaupum sem er okkar aðal.
Fyrri hálfleikinn lékum við að mörgu leyti eins og við viljum gera, en síðari hálfleikurinn var ekki alveg á okkar línu. Þess utan þá létum við franska markvörðinn Cleopatre Darleux verja alltof mikið frá okkur, ekki síst úr góðum færum. Ég held að hún hafi verið með hátt í 60% markvörslu í síðari hálfleik. Þannig að það var margt sem fór úrskeiðis hjá okkur og þess vegna er enn sterkara að vinna jafn sterkt lið og Frakkar hafa yfir að ráða þegar mest á ríður,“ sagði Þórir.

Einstaklingar tóku af skarið

Tíu mínútum fyrir leikslok var staðan jöfn. Frakkar voru þá ekkert síður líklegir til að fara með sigur af hólmi. „Þegar mestu máli skipti þá náðum við að komast inn á sporið á ný sem varð þess valdandi að við unnum. Þar skipti miklu máli að nokkrir einstaklingar tóku af skarið. Má þar nefna Silju Solberg í markinu, Noru Mörk sem skoraði tvö mikilvæg mörk, Stine Skogrand skoraði úr mikilvægi víti auk þess sem miðjumennirnir í vörninni voru frábærar. Þessi atriði fleyttu okkur yfir hjallann á endasprettinum,“ sagði Þórir.

„Markmiðið er að sjálfsögðu bara eitt, að fara á Ólympíuleikanna“


Þórir segir metnaðinn vera gríðarlegan, bæði innan liðsins og hjá norska handknattleikssambandinu fyrir að ná alltaf toppárangri á mótum. Það breytist aldrei, sama hversu oft sem tekið er við gullverðlaunum á stórmótum. „Við erum í þessu til þess að ná sem lengst. Allir róa í sömu átt.“

Ef maður er stressaður og æstur þá smitast það út til leikmanna“


Næsta verkefni norska kvennalandsliðsins verður þátttaka í forkeppni Ólympíuleikanna upp úr miðjum mars. Fyrir liggur að norska landsliðið verður í riðli sem fram fer í Svartfjallalandi þar sem einnig verða landslið Rúmeníu og Kasakstans auk heimaliðsins í keppni þar sem tveir farseðlar verða í boði inn á Ólympíuleikana sem til stendur að fari fram í sumar.

„Það verður hrikalega erfitt að leika við Svartfellinga á heimavelli og Rúmena sem munu mæta eins og grenjandi ljón til þess með fullskipað lið. Fram að þeim tíma sýnum við auðmýkt og vinnum áfram í okkar málum. Markmiðið er að sjálfsögðu bara eitt, að fara á Ólympíuleikana.“

Var ekki rólegur í gamla daga

Athygli vekur að Þórir er alltaf pollrólegur á hliðarlínunni sama hversu mikil spenna er í leikjum. Spurður út í það segir Þórir það ekki hafa verið sinn stíl hér á árum áður að vera rólegur. Hann hafi hinsvegar tamið sér yfirvegun með árunum.

Þórir Hergeirsson fagnar marki undir lok úrslitaleiksins við Frakka á EM í kvöld. Mynd/EPA


„Ef maður er stressaður og æstur þá smitast það út til leikmanna. Til viðbótar þá tel ég að maður vinni betur í sínu á hliðarlínunni ef maður temur sér yfirvegun. Það er svo auðvelt að stressa upp leikmenn ef maður er með læti og ná ekki yfirsýn á heildarmyndina.“

Tíu daga sóttkví

Norska landsliðið fer frá Danmörku með einkaflugvél eldsnemma í fyrramálið. Heima tekur við tíu daga sóttkví hjá Þóri, leikmönnum og öðrum þeim sem í kringum liðið vinna. Sú eina sem sleppur er markvörðurinn Silje Solberg sem veiktist af kórónuveirunni fyrir 6 vikum.


„Við fáum takmarkaða undanþágu frá ströngum sóttvarnareglum í Noregi. Hún er sú að við megum vera innan veggja heimilis okkar í sóttkví í 10 daga. Þá daga megum við aðeins umgangast maka og börn okkar en ekki hitta neina aðra, aðeins þá sem búa með okkur á heimili alla jafna. Þetta er það sem fylgir og maður tekur því að sjálfsögðu,“ sagði Þórir Hergeirsson í samtali við handbolta.is á hóteli norska landsliðsins í Herning. Það mátti skýrt heyra vaskan kvennahóp syngja sigursöngva á bak við hann þær mínútur sem viðtalið stóð yfir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -