„Þetta verður okkur erfiðasti leikur á mótinu fram til þessa. Á því leikur enginn vafi enda mætast án vafa tvö bestu lið mótsins í úrslitaleiknum. Frakkar eru með firnasterkt lið og við verðum að leika eins mikinn toppleik og hægt er til að vinna,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins í handknattleik þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans fyrir stundu, sex klukkustundum áður en hann gengur til leiks með norska landsliðið í úrslitaleik við ríkjandi Evrópumeistara Frakka á Evrópumóti kvenna í handknattleik í Danmörku.
Um er að ræða níunda úrslitaleikinn á stórmóti sem Þórir tekur þátt í sem aðalþjálfari liðsins, þar af sá fimmti á Evrópumóti. Leikurinn hefst klukkan 17 og verður sýndur á RÚV.
„Manni hefur dreymt um þessa stund en það er aldrei hægt að ganga út frá einhverju vísu í þessu þótt maður hafi í höndunum afar sterkt lið,“ sagði Þórir sem hefur ásamt aðstoðarfólki sínu legið yfir franska liðinu sem getur verið mjög óútreiknanlegt. Það sé eins og kamelljón.
Tíðar áherslubreytingar í vörninni
„Frakkarnir eru fljótir að breyta varnarleik sínum og eiga það til að leika með mismunandi afbrigði af vörn frá einni vörn til annarrar innan leikja. Andstæðingurinn veit þess vegna ekki á stundum ekki hvað bíður hans í næstu sókn. Til viðbótar eru frönsku leikmennirnir mjög líkamlega sterkir, maður á mann. Þess vegna verðum við að vera mikið í núinu og leysa hvert atriði í varnarleiknum jafn óðum, sókn eftir sókn og bregðast hratt við. Lesa í leikinn jafnóðum.
Gegn góðri franskri vörn þá er nærri útilokað fyrir andstæðinginn að ná upp almennilegum hraða. Það er sífellt verið að brjóta á sóknarmönnum og trufla þá. Það er nokkuð sem menn verða að þola, bæði líkamlega og andlega.
Af þessu leiðir að leikmenn verða að vera klókir, útsjónarsamir og reiðubúnir að lesa hratt í stöðuna hverju sinni,“ sagði Þórir sem segir vörn franska liðsins vera allt öðru vísi en til dæmis þá sem danska liðið leikur og Norðmenn mættu í undanúrslitum á föstudagskvöldið.
Vilja draga úr hraðanum
„Vegna þessa varnarleiks sem Frakkar leika þá er er hraðinn yfirleitt minni í leikjum og mörkin þar af leiðandi færri. Ef þeir fá að ráða ferðinni þá verða ekki skoruð mörg mörk. Þó hefur franska liðið einstöku sinnum sýnt að það býr yfir meiri hraða. Þess vegna verðum við að vera reiðbúin ef leikurinn springur skyndilega upp. Það væri kostur fyrir okkur, að minnst kosti fljótt á litið,” segir Þórir sem áfram mun leggja höfuð áherslu á helstu kosti norska liðsins, vörn, markvörslu og hraðaupphlaup.
„Það mun skipta höfuðmáli fyrir okkur að markvarslan verði góð og okkar eigin vörn. Verði þessi tvö atriði í góðu lagi hjá okkur þá aukast möguleikar á hraðaupphlaupsmörkum sem munu skipta gríðarlegu máli, Hvert mark er dýrmætt.“
Markverðirnir skipta miklu máli
Þórir segir það hafa verið mikinn styrk fyrir norska liðið þegar markverðirnir Katrine Lunde og Silja Solberg gátu gefið kost á sér og bæst í hópinn er á mótið leið. „Það fer enginn í undanúrslit á stórmóti nema að hafa frábæra markverði. Gæðin á mörgum liðum eru orðin það mikil að hvert atriði vegur orðið þyngra en áður. Þar á meðal vegur hvert varið skot þungt í jöfnum leikjum.“
Leikurinn við Dani tók á
Undanúrslitaleikurinn við Dani á föstudagskvöldið tók mjög mikið á, bæði andlega og líkamlega að sögn Þóris. „Það eru alltaf miklar tilfinningar í spilinu þegar Noregur og Danmörk mætast á handboltavellinum, ekki í síst í leikjum sem hafa mikla þýðingu eins og leikurinn á föstudaginn.
Mikið reyndi á miðjumennina í vörn okkar í leiknum við Dani, þær Marit Frafjord og Henny Reistad. Þess vegna gæti komið til þess að ég verði að gefa þeim tíma til að hvíla sig einhvern tímann í leiknum.
Annars er ég er mjög spenntur að sjá hver staðan er á þeim þegar á hólminn verður komið. Leikurinn verður líkamlega erfiður og áhugavert að sjá hvað menn eiga mikla orku inni. Ég veit samt ekki betur en að stelpurnar séu líkamlega tilbúnar í leikinn en maður er aldrei hundrað prósent viss. Ég er vongóður,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í samtali við handbolta.is á tólfta tímanum í dag.