- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þorsteinn Gauti kallaður inn í finnska landsliðið

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson leikmaður Fram. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Framarinn Þorsteinn Gauti Hjálmarsson hefur fengið boð um að mæta í æfingabúðir finnska landsliðsins í handknattleik fyrstu helgina í janúar og taka þátt í fjögurra þjóða æfingamóti í Lettlandi með finnska landsliðinu. Gangi allt upp hjá Þorsteini Gauta gæti hann leikið sína fyrstu landsleiki fyrir Finnland á mótinu í Lettlandi en auk Finnlands og Lettlands taka landslið Litáen og Eistlands þátt.

Finnsk amma

Amma Þorsteins Gauta í föðurætt var finnsk og þessvega var hægt að sækja um tvöfalt ríkisfang fyrir hann þegar hann var barn. Fyrir vikið er Þosteinn Gauti gjaldgengur með finnska landsliðinu nú þegar.


„Ég renni alveg blint í sjóinn en viðurkenni að þetta er spennandi,” sagði Þorsteinn Gauti í samtali við handbolta.is í dag. Hann sagðist hafa vitað af þessum möguleika en aldrei spáð alvarlega í það fyrr en í haust að láta Finnana vita af sér. Svo setti covid strik í þetta eins og margt annað.


„Það verður bara gaman að prófa og sjá hvar maður stendur að vígi,“ sagði Þorsteinn sem á að mæta til Helsinki fyrstu helgina í janúar. Í mars leikur finnska landsliðið gegn Slóvökum í tvígang, heima og að heiman, í undankeppni EM 2024.

Stress vegna meiðsla

Þorsteinn Gauti hefur misst af þremur síðustu leikjum Fram vegna meiðsla í framhandlegg. „Aðalstressið núna eru meiðsli. Ég vonast til að þau setji ekki strik í reikninginn þegar að þessu kemur auk þess sem ég vil ná síðustu leikjum Fram fyrir jól. Við eigum nokkra leiki eftir,“ sagði Þorsteinn Gauti Hjálmarsson leikmaður Fram og hugsanlega landsliðsmaður Finnlands í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -